137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

vaxtamál.

[10:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Efnahagslíf okkar er læst inni í vítahring hárra vaxta og lágs gengis. Gengið hefur lækkað um 20% frá því að það var sterkast í mars og stýrivextir eru enn óbreyttir alveg eins og gert var ráð fyrir. En hverjir eru það sem blæða við þessar aðstæður? Við vitum húsnæðisverð hefur lækkað mjög mikið á þessu ári. Það hefur lækkað um 32% að raunvirði frá því í ársbyrjun þegar það var hæst. Það er í rauninni eignarýrnun almennings sem hefur gert það að verkum að verðbólgan er ekki miklu meiri en raun ber vitni um. Almenningur blæðir með eignamissi sínum vegna þess að ríkisstjórnin ræður ekki við vandann, peningastefnunefndin treystir sér ekki til vaxtalækkana, gengið hefur hrunið og enginn veit í dag hvert það mun stefna. Ríkisstjórnin hefur verið í algerri afneitun og lætur í ljósi frómar óskir um að ástandið lagist í hvert einasta sinn sem við heyrum fréttir af stýrivaxtalækkunum. Síðasta stýrivaxtalækkun sem eitthvað kvað að var í maí sl. skömmu eftir kosningar en það er alveg ljóst að trú peningastefnunefndar Seðlabankans á ástandinu, á ríkisstjórninni og á aðgerðum hennar, er mjög lítil eins og raun ber vitni.

Í maí spáðu menn því að þá yrði gengið stöðugt en það hefur ekki ræst. Nú er farið að spá því að menn muni ekki sjá frekari lækkun vaxta fyrr en jafnvel í apríl á næsta ári. Ekki er heldur talið að verðlag muni hjaðna í þessum mánuði. Nú er jafnvel farið að ræða um frekari hækkun stýrivaxta í stað þeirrar stýrivaxtalækkunar sem menn töldu sig sjá á sl. vori. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. félagsmálaráðherra álits á þeirri ákvörðun peningastefnunefndar í morgun að lækka ekki stýrivexti því að það er alveg ljóst mál að þetta mun hafa veruleg áhrif á hag heimilanna í landinu og möguleika þeirra til að bregðast við við þessar mjög svo erfiðu aðstæður.