139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

lausn á skuldavanda lítilla fyrirtækja.

[10:56]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir til hv. þingmanns fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég held að það sé full ástæða til að fara yfir það með Byggðastofnun hver lagaskilningur okkar er og af hverju við teljum þetta mögulegt í ljósi laga nr. 107/2009. Ef það eru áfram hindranir þar í vegi held ég að það sé einboðið að við tökum á því og undirbúum þá nauðsynlegar lagabreytingar þannig að hægt sé að koma fram með þær hér um leið og þing kemur saman að loknu þingfundahléi yfir jól.

Í þessu verða allir að taka þátt. Það er mjög mikilvægt að lítil og meðalstór fyrirtæki leiti núna til viðskiptabanka sinna, leggi fram öll gögn og kalli eftir tillögum. Við eigum óskaplega mikið undir því að fyrirtækin geti bætt við sig verkefnum, aukið umsvif sín og bætt við sig fólki. Það verður að gerast hjá öllum fyrirtækjum, líka þeim sem eru með (Forseti hringir.) skuldir hjá Byggðastofnun.