140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[15:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Um leið og ég lýsi því yfir að ég hef mikinn skilning á þeim sjónarmiðum sem komu hér fram fyrst í máli hv. þm. Helga Hjörvars og á þeirri eðlilegu löngun dýraeiganda eða jafnvel þörf í einstaka tilvikum þegar um hjálparhunda er að ræða að menn geti hindrunarlaust eða hindrunarlítið flutt dýr sín á milli landa, vil ég jafnframt koma fram með þau varnaðarorð að hér hefur um langt árabil verið mjög hörð stefna í því til að koma í veg fyrir alls kyns sjúkdóma sem við getum átt á hættu að komi í okkar búfé og gæludýr, jafnvel frá gæludýrum. Við höfum undirgengist alls kyns sáttmála til að verja þá stofna sem eru í landinu með öllum tiltækum ráðum. Eitt af þeim ráðum er að hafa mjög harðar reglur um innflutning dýra, þar á meðal gæludýra.

Hv. flutningsmaður ræddi hér talsvert framkomu og afstöðu Breta, en ef við tækjum fyrir breska heimsveldið og skoðuðum fleiri þætti, t.d. afstöðu Nýja-Sjálands eða Ástralíu sem eru líka hluti … (Gripið fram í: Samveldisins.) já, samveldisins — og hluti af gamla heimsveldinu, væri allt önnur staða þar uppi. Þar er mjög hörð einangrunarstefna gagnvart innflutningi á dýrum og öllu sem tengist dýralífi af eðlilegum orsökum því að eins og Ísland eru Ástralía og Nýja-Sjáland, og sérstaklega í Ástralíu sem er margfalt stærri, einangraðar eyjar með sérstakt vistkerfi og þola illa að slys eigi sér stað, til að mynda af völdum þess að menn hafi gjarnan viljað koma til móts við einhvern hóp dýraeigenda eða hagsmunahóp sem vill flytja inn einhverja tiltekna dýrategund, og þrátt fyrir að menn hafi vottað á vottun ofan.

Fyrr í dag var rætt hér um vottun á brjóstapúðum. Það var líka vottað á sínum tíma þegar flutt var inn karakúlfé til Íslands. Það var vottað af helstu og bærustu heilbrigðisstofnunum sem þá voru til í heimi að allt væri í besta lagi með þær skepnur. Í ljós kom að við fluttum inn með þeim einhverja erfiðustu og skæðustu sjúkdóma sem hafa verið hér í sauðfé allt fram á þennan tíma með óheyrilegum tilkostnaði sem lagst hefur bæði á dýraeigendur og almenning í landinu.

Ég get því ekki annað við 1. umr. málsins en komið hér upp og haft uppi varnaðarorð um að menn fari varlega, mjög varlega, og haldi að heimurinn sé breyttur. Hann hefur ekkert breyst að öðru leyti en því að áhættan verður sífellt meiri vegna ferðalaga fólks og kröfu um að hafa hlutina svona og svona. Það hefur breyst, en það hefur ekkert breyst hvað það varðar að sjúkdómar geta borist á milli landa og valdið gríðarlegu tjóni, bæði á þeim stofnum sem við höfum í landinu svo sem búfjárstofnum eins og ég hef nefnt en það gæti líka komið til í sambandi við gæludýrin. Það hefur hins vegar verið meiri lausung á því sviði. Hér hefur verið nefnt að flutt hafi verið inn dýr til dæmis í gegnum sendiráð og annað, menn hafi jafnvel skipulagt að hittast á götuhornum til að fjölga ákveðnum tegundum. Þetta eru sögur sem hafa verið sagðar fyrr á tímum. Það hafa líka komið inn sjúkdómar með þessari lausung, gæludýrasjúkdómum hefur fjölgað á liðnum árum með tilheyrandi sársauka og kostnaði fyrir dýraeigendur sem hafa fengið þá sjúkdóma í sín dýr.

Þetta er ekki eins lítið mál og hér var látið í veðri vaka í ræðu hv. þm. Helga Hjörvars. Hann endaði ræðu sína á því að segja að menn mættu ekki skiptast í flokka og fara að blanda þessu saman við Evrópusambandið. Ekki veit ég af hverju hv. þingmanni datt það í hug, frú forseti. En það verður þó að koma hér fram að ein af kröfunum sem við höfum sett fram í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið er algert bann við innflutningi dýra. Ættum við þá á sama tíma og við krefjumst þess að ekki verði innflutningur á lifandi dýrum að koma fram með frumvarp þar sem við ætlum að opna gluggann á innflutning á lifandi dýrum? Hv. þingmaður verður að virða mér það til vorkunnar og kannski fleirum að ekki er hægt annað en taka þennan pól í umræðuna líka. Það er óhjákvæmilegt.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta mál er lagt fram og þau sjónarmið sem ég hef talað hér fyrir eru ekki bundin við skoðun mína. Hafa menn til að mynda lesið umsögn Matvælastofnunar frá því að málið var lagt fram síðast og hvað sérfræðingar þar sögðu um innflutning á dýrum og varnir gegn dýrasjúkdómum og hvernig við ættum að reyna að verjast og halda uppi sem bestu heilsufari bæði í mönnum og skepnum, viðhalda matvælaöryggi og annað í þeim dúr? Samt kemur þetta frumvarp hér inn eins og ekkert hafi í skorist. Á sama tíma og við berjumst fyrir því að uppfylla skyldur okkar til að verja fágæta búfjárstofna með öllum tiltækum ráðum samkvæmt slíkum yfirlýsingum og verandi í aðildarviðræðum þar sem við höfum gert kröfu um fortakslaust bann við innflutningi lifandi dýra kemur þetta frumvarp fram og opnar þann glugga. Menn geta auðvitað gert sér að leik að velta því fyrir sér hvort frumvarpið sé lagt fram til að veikja þá stöðu vegna þess að menn búist við andstöðu Evrópusambandsins, þegar kaflinn þar sem fjallað er um þetta mál var ræddur kom fram andstaða Evrópusambandsfulltrúanna við þetta, að ekki væri hægt að setja svona fram að það væri fortakslaust bann við innflutningi dýra. Það getur vel verið að það sé hugsunin með frumvarpinu ef kenningasmiðir djúpra samsæriskenninga mundu velta því fyrir sér að það sé lagt fram til að veikja þá samningsstöðu. Ég trúi því ekki. Ég trúi því fyrst og fremst að hér sé komið fram mál, sem eins og ég hóf mál mitt á ég hef fullan skilning á, þar sem einstakir hópar, hagsmunahópar vilja gjarnan geta haft gæludýr sín með sér ef þeir til að mynda hafa tvöfalda búsetu, jafnvel björgunarhunda sem farið er með til leitar á öðrum svæðum en Íslandi, og/eða alls kyns hjálparhunda.

Ég vara við því að menn líti á þetta sem lítið mál. Þetta er alvarlegt mál og er fyrsta skrefið í þá átt að opna landið og með alvarlegri og víðtækari afleiðingum en menn gera sér grein fyrir í fyrstu. Kynnið ykkur, ágætu þingmenn, sögu innflutnings dýra á síðustu tveimur öldum og afleiðingar þess á Íslandi. Kynnið ykkur sögu og afstöðu Nýja-Sjálands og Ástralíu en takið ekki Stóra-Bretland sem dæmi um hvernig við eigum að haga okkur í okkar varnarbaráttu til að verja húsdýr og gæludýr sem og að halda uppi hámarksgæðum matvæla og heilsu manna og dýra.

Við verðum augljóslega að fjalla um þetta mál í atvinnuveganefnd og kalla þar til þá sérfræðinga sem hafa áður sent inn umsagnir. Við munum að sjálfsögðu gera það vel og vandlega.

Ég vil, frú forseti, í lok máls míns ítreka það enn og aftur að vara við þeirri hugsun að hér sé um lítið mál að ræða. Þetta er stórmál og við þurfum virkilega að velta því fyrir okkur hvernig skynsamlegast er að stíga til jarðar í því.