140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

stjórn fiskveiða.

202. mál
[17:20]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar skýrar og greinargóðar spurningar. Hvað varðar sveitarfélögin heldur Reykjavík að sjálfsögðu sínum status sem útgerðarbær. Reykjavík hefur verið stærsta verstöð landsins um áratugi og jafnvel aldabil og fær í sinn hlut áfram þann hluta af heildarkvóta sem Reykjavík fékk á sínum tíma þegar byggt var á veiðireynslu við fyrstu úthlutun.

Hið sama gildir um önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, um Hafnarfjörð og um Kópavog sem fær úthlutað tiltölulega litlum kvóta, þ.e. 953 tonnum. Álftanes er ekki á blaði enda var það ekki á sínum tíma í upprunalegri úthlutun.

Hugmyndin á bak við þetta er sú að þeir sem höfðu veiðireynslu þegar kerfinu var komið á fái áfram að veiða í samræmi við hana. Þar er til dæmis ekki um að ræða Hveragerði, Flúðir eða Kirkjubæjarklaustur. Tilvist þeirra staða byggir á nákvæmlega sama plani, þeim auðlindum sem til er að dreifa á þeim svæðum. Í Hveragerði er mikill jarðvarmi, á Flúðum er mikill jarðvarmi, á Kirkjubæjarklaustri hefur byggst upp landbúnaðarsamfélag í kringum landbúnaðinn þar þannig að við reynum að raða þessu svona eftir bestu getu.

Hvað varðar strandveiðarnar og veður í apríl og september eru vissulega verri veður á þessum tíma, en ég sem sjómaður til tíu ára treysti sjómönnum fyllilega til að meta sjálfir hvort þeir fari út í vondum veðrum eða ekki. (HHj: Þú varst á flutningaskipi.) Sá samdráttur sem hefur orðið í sjóslysum undanfarin ár stafar ekki af því að sjómönnum hafi verið bannað að fara á sjó heldur betri menntun og betri tækjabúnaði. Ég hef engar áhyggjur af þessu.

Hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslu um margar útfærslur á kvótamálum er það einmitt leiðin sem á að fara. Það á einmitt að gefa landsmönnum færi á því að meta fleiri en eina leið í staðinn fyrir að meta eina opinbera leið ríkisstjórnarinnar. Miðað við annars vegar þá leið eða óbreytt kerfi eiga að sjálfsögðu að vera fleiri leiðir til en ein.