141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vek athygli forseta á því að á fundi fjárlaganefndar í gær barst svar fjármálaráðherra við erindi stjórnarandstöðunnar þar sem óskað er upplýsinga svo hún geti rækt lögbundið hlutverk sitt. Eftir mikla eftirgangsmuni við meiri hluta fjárlaganefndar var tekið til bragðs að bóka sérstaklega og krefjast á grundvelli 51. gr. þingskapa ákveðinna upplýsinga í tengslum við fjáraukalagagerð ársins 2012. Sú bókun og það erindi var sent ráðuneytinu 6. nóvember síðastliðinn. Við fengum svar 10. desember þó svo að ráðuneytið hafi aðeins lögbundna sjö daga til að svara umræddu erindi. (Gripið fram í.) Ekki nóg með það heldur er erindið með þeim hætti að það er forkastanlegt, svo ekki sé meira sagt, þ.e. hvernig það er sett upp. Í rauninni sniðgengur ráðherra með því erindi og með afgreiðslu þess lögbundið hlutverk sitt og gengur á snið við þingsköp Alþingis. Það er í mínum huga grafalvarlegur hlutur og krefst þess að forseti Alþingis taki það mál til sérstakrar umfjöllunar og geri kröfu til Stjórnarráðsins og þeirra ráðherra sem hér undir heyra að þeir bæti ráð sitt.

Undir þeim kringumstæðum er þingmönnum gersamlega ókleift að rækja það hlutverk sem þeir taka að sér þegar þeir taka sæti á hinu háa Alþingi. Full ástæða er til að undirstrika að orðalagið í bréfinu er með þeim hætti að gefið er til kynna að þingmenn skulu ekki hafa ráð á því sjálfir til hvaða aðgerða þeir grípa til að rækja hlutverk sitt heldur er bent á að það sé ráðuneytisins að ákveða slíkt. (Forseti hringir.) Þegar svo er komið er Alþingi Íslendinga í alvarlegri stöðu.