143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

útlendingar.

249. mál
[13:02]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég treysti á það, ég held að ágætt sé að fá upplýsingar um hverjir hafa komið að málinu, líka til að auðvelda nefndinni að fylgja því eftir sem þegar hefur verið rætt. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að auðvitað getum við ekki flokkað fólk í hópa en þó verðum við að viðurkenna að hælisleitendur hafa sérstöðu um margt. Þau mál kalla á öðruvísi vinnubrögð hvað varðar afgreiðslu og hraða og við vitum líka að það er til fólk sem er jafnvel sent nánast á milli landa til að reyna að komast til annarra landa í gegnum Ísland o.s.frv.

Það sem mig langaði aðeins að nefna í seinna andsvari var ábending sem kom fram í fyrri umræðunni um innflytjendur og þann auð sem við eigum í því fólki sem hingað hefur flutt en samtímis það vandamál sem hefur einmitt verið hluti af umræðunni. Menn áttu, undarlegt nokk, einhvern veginn ekki von á því að þeir sem fluttust hingað sem vinnuafl þegar þenslan var hvað mest fyrir hrun, yrðu um kyrrt en það vissu allir sem höfðu fylgst með sömu þróun á Norðurlöndunum og víðar í Norður-Evrópu að þessi hópur mundi ekki fara til baka heldur kæmu fjölskyldur þeirra hingað í framhaldi og búsettu sig hér. Ég tek undir það sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að líta á það sem styrkleika fyrir íslenskt samfélag, bæði menningarlega, atvinnulega og félagslega, að fá þessa fjölbreytni inn í samfélagið.