146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:20]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi þróun hefur eiginlega orðið án upplýsts samþykkis þjóðarinnar. Er það almennt séð vilji okkar að fara út í óbeina skatta, notkunarskatta eins og vegtolla og að rukka inn á klósett og slíkt? Er það stefna sem við viljum almennt? Er það eitthvað sem við kjósum um í kosningum? Ég held ekki. Rétt eins og við leggjum fram þingsályktunartillögur hérna inni þá vantar okkur einhvers konar almenningsályktunartillögur sem við værum með þjóðaratkvæðagreiðslur um, sem myndu búa til þennan ramma fyrir okkur hérna inni á þingi: Nei, við viljum ekki að það form t.d. sem við greiðum til Ríkisútvarpsins sé í formi nefskatts heldur sé beinn skattur í gegnum skattprósentuna, ekki í gegnum þessa einu upphæð sem kemur á hverju ári. Ég kannast við (Forseti hringir.) það þegar kemur að því að borga í Framkvæmdasjóð aldraðra eða nefskattinn, það hafði rosaleg áhrif einu sinni á ári á það sem ég hafði á milli handanna, (Forseti hringir.) það var mikið neikvæðara. Sultarólin var hert þann mánuðinn.