146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:24]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka góða spurningu. Nei, þetta er vitaskuld firra, algjör veruleikafirring. Við stefnum inn í gífurlegar breytingar í loftslags- og umhverfismálum og höfum ekki hugmynd um hvert þær leiða okkur. En það er vitað að ef við stefnum áfram á þeirri braut sem við erum á í dag þá erum við ekki á góðri leið, talandi um þessa sjö kynslóðareglu, um að við megum ekki skerða réttindi þeirra kynslóða sem koma á eftir okkur. Ef eitthvað ættum við að tala um það hvernig við getum minnkað hagkerfið, ekki stækkað það. Þetta er ósjálfbært, það er kjarninn í ósjálfbærni að tala um þetta. Ég ætla að þakka hv. þingmanni fyrir að benda á þennan fáránleika.

Ég veit ekkert alveg hvernig við eigum að berjast gegn þessu út af því að þetta er miklu stærra vandamál en bara hér á Íslandi. Ég varð vitni að því á fundi alþjóðaþingmannasambandsins þegar ég var úti í New York að ræða um málefni hafsins; þar var enginn reiðubúinn til að horfa fram á að við þyrftum mögulega að tala um að minnka hagkerfið, minnka framleiðslu og minnka neyslu.