146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:26]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir orð hv. þingmanns. Þetta er alveg rétt. Það sem veldur mér líka áhyggjum er að þegar maður ræðir þessi mál þá er aldrei horft á ábyrgð stórfyrirtækja, hvaða ábyrgð þau bera. En það er alltaf rosalega mikið talað um ábyrgð neytandans. Það er reyndar ómöguleiki þegar meginþorri fólks á þessari jörðu er í þannig efnahagsástandi að geta ekki tekið ákvarðanir út frá sjálfbærni um vörur til að versla. Það er ekki hægt að ætlast til þess. Þetta verður að koma að ofan. Við þurfum að taka ábyrgð á þessu. Stórfyrirtæki þurfa að taka ábyrgð á þessu. Við þurfum að dreifa auðlindunum og arðinum af þeim þannig að við reynum að útrýma fátækt. Það er fyrsta skrefið í átt að því að bjarga umhverfinu, held ég, ef við útrýmum fátækt; það væri gríðarstórt skref í þá átt. Þá erum við að valdefla einstaklinginn til að hann geti tekið þessa ábyrgð á sínar herðar. Þá getum við öll tekið ábyrgð saman. Væri það ekki skemmtilegt?