146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:54]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hef áhyggjur af sveitarfélögunum. Sérstaklega þegar maður sér nánast glitta í skeytingarleysi í þeim efnum gagnvart sveitarfélögunum í þessari stefnu. Því að sveitarfélögin eru ekki bara einhver rekstrareining hér og þar um landið. Sveitarfélögin sjá um mjög mikilvægan þátt opinberrar þjónustu. Kannski er þar allra mikilvægast leik- og grunnskólakerfið okkar. Við horfumst núna í augu við mjög alvarlegt ástand að því er varðar menntaða kennara á Íslandi. Við gætum verið í krísu eftir nokkur ár ef við tökum ekki til okkar ráða.

Rót vandans eru kannski fyrst og fremst fjárhagslegir erfiðleikar sveitarfélaganna og óeðlileg skipting milli ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin þurfa einfaldlega stöðugri grunn til þess að geta staðið straum (Forseti hringir.) af þessari þjónustu og kennarar þurfa hærri laun. Það snýst um stöðu sveitarfélaganna.