146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna og tók eftir því að hann vísaði til þess að ekki hefðu tekist samningar milli fyrrverandi ríkisstjórnar og þeirra sem vildu fara varlegar. Ég vona að hv. þingmaður hafi tekið eftir því að núna er últra-hægri stjórn í landinu og að það hafi ekki verið hægri stjórn við lýði þar á undan heldur hafi menn verið tilbúnir að hlusta á þessi sjónarmið.

Mig langar að ræða það atriði sem þingmaðurinn gerði að aðalumtalsefni sínu, þ.e. að bæta við þessu þaki, 41,5%, sem fjármálaráðið gagnrýnir reyndar og virðist ekki hafa verið tekið mark á, við höfum alla vega ekki heyrt það í þingsalnum. Ég tek undir með þingmanninum að það er skortur á fólki hér úr stjórnarliðinu til að taka þátt, í það minnsta að hlusta, og koma inn í umræðuna. Ef þetta þak verður rofið, býst þingmaðurinn við að ríkisstjórnin sé í raun og veru (Forseti hringir.) að segja: Það gerir ekkert til, þá hendum við bara þessari stefnu af því það var neyðarástand og við erum að breyta? Þá kemur spurningin: (Forseti hringir.) Af hverju heldur þingmaðurinn, af því að ég hef ekki neina stjórnarþingmenn til að spyrja, (Forseti hringir.) að menn sníði sér svona þröngan stakk (Forseti hringir.) sem þeir munu svo þurfa að henda (Forseti hringir.) ef hér verður neyðarástand með (Forseti hringir.) tilheyrandi falli á krónu (Forseti hringir.) og vexti verðbólgu?

(Forseti (TBE): Forseti biður þingmenn um að virða tilsettan ræðutíma.)