146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get út af fyrir sig tekið nokkuð undir þetta. Ég er sammála hv. þingmanni um það. Það er nánast eins og menn telji sig geta lagst allt í einu í nákvæmnisútreikninga með tveimur aukastöfum og þar með búi þeir til svolítið svigrúm. Það er nú ekki víst að það gangi allt eftir, því miður. Svo skulum við ekki gleyma því að þó við séum að tala um einhverja 20, 30 milljarða lækkun skulda að nafnvirði þá er stabbinn áfram talsverður sem þarf að borga vexti af, 1.000 milljarðar plús/mínus eða hvað það nú er. Það sem er langafdrifaríkast er vaxtastigið sjálft. Hver treystir sér til að spá fyrir um það hverjir vextirnir verða? Það þarf ekki nema 30, 50 punkta hækkun, þá er allur þessi ávinningur fyrir bí af því að nafnvirði skuldanna er þrátt fyrir allt það mikið út áætlunartímann. Það hefur nú ekki gengið óskaplega vel að lækka vexti á Íslandi eins og kunnugt er og ekkert víst að það gangi eftirleiðis svo glatt. Þetta er alveg ofboðslega mikil spá út í loftið, puttinn upp í loftið hvað það varðar, hver hin raunverulegu vaxtaútgjöld ríkisins verða á næstu árum. Það ræðst fyrst og fremst (Forseti hringir.) af vaxtastiginu. Ef við værum hér með japanska vexti þá væri (Forseti hringir.) ekki mikið mál að geyma þessar skuldir og það myndi kosta hér um bil ekki neitt, enda lifir Japan þannig (Forseti hringir.) með sínar 250% skuldir af vergri landsframleiðslu.