146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:34]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Eini sagnfræðingurinn sem mögulega var eitthvað hlustað á, þótt kannski ekki hafi verið fyrr en örskömmu eftir atburðina, fékk slíkan framgang fyrir sitt innlegg í umræðuna að hann er nú orðinn forseti Íslands. Það ætti kannski að draga þann lærdóm af því hvað sagnfræðingar geta gert þegar þeir koma að málum.

En ég deili áhyggjum hv. þingmanns um að við séum að endurtaka mistök, séum komin annan hring. Ég hjó eftir því þegar hér var lesið upp úr skýrslunni um einkavæðingu Búnaðarbankans á sínum tíma, fögur orð um traustið sem íslensku efnahagslífi væri sýnt með því að hér streymdi inn erlend fjármagn í bankakaup. Í smástund hélt ég að væri verið að lesa upp úr nýlegu viðtali við Bjarna Benediktsson, hæstv. forsætisráðherra, um það traust sem íslensku efnahagslífi væri sýnt með því að erlendir vogunarsjóðir hefðu keypt hlut í Arion banka. Þetta voru nánast sömu orðin. Einhvern veginn förum við í hringi með þetta þannig að ég deili þessum áhyggjum.

Hv. þingmaður sem ég veit að er heiðvirður, bæði af mínum störfum með honum hér í þingsal og í hv. umhverfisnefnd, hefur það umfram mig að hafa í kosningabaráttunni verið með mönnum sem komu meira að þessari fjármálastefnu en ég gerði. Man hann eftir því úr kosningabaráttunni úr Norðausturkjördæmi að þar hafi verið talað um útgjaldaþak? Man hann eftir því að þar hafi verið talað um að öll innviðauppbygging skyldi rúmast innan hagsveiflunnar? Man hann eftir því að það hafi í raun (Forseti hringir.) verið sagt að hér yrði ekki mikið gert í uppbyggingu nema ef mögulega tækist að einkavæða ríkiseignir?