146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:15]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir spurningarnar.

Það er spurning hvernig maður á að nálgast þetta. Hugmyndafræðin er eitt. Ég skal viðurkenna að það er ákveðin hugmyndafræði í þessu. Það er engin framtíðarsýn í þessu, en það er ákveðin hugmyndafræði. Það er hugmyndafræði hinnar kaldlyndu nýfrjálshyggju sem við höfum svolítið mikið séð bera upp hjá hæstv. ríkisstjórn. Það er stefna sem gengur út frá því að enginn skuli gera neitt saman heldur skuli allir gera allt í sitt hvoru lagi. Það er að vísu frekar einstrengingsleg túlkun á því, en ég ætla að leyfa mér hana í ljósi tímaskorts.

Við hljótum að geta gert betur. Mig langar til að sjá að við getum gert betur. Það tengist einmitt þriðju spurningu hv. þingmanns sem hefur verið rædd, m.a. af hv. þm. Halldóru Mogensen í gær, að mig minnir, þar sem hún velti fyrir sér hvort það að hugsanlega sé verið að tala um að loka fiskvinnslu á Akranesi sé ekki hluti af því sem við munum halda áfram að sjá með aukinni sjálfvirknivæðingu sem dregur úr þörfinni fyrir starfsfólk og eykur gróðatækifæri fyrirtækja sem hafa vélmenni og gervigreind sem sjái um alla vinnuna. Þegar við setjum það í samhengi við umræðuna, sem m.a. margmilljarðamæringar úti í heimi hafa jafnvel verið að benda á, að við þurfum einhvers konar styrkingu á hinu sjálfsagða félagslega neti til þess einmitt að bregðast við þessari tæknivæðingu og tækniaukningu sem er að eiga sér stað, þá kemur það auðvitað inn.

Ég sé að ég er fallinn á tíma þannig að ég svara annarri spurningu kannski næst.