146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:20]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í ræðum hv. þingmanna ræðum við tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árið 2017–2022. Við erum að ræða þann ramma sem fjárlögin eiga að passa í fram til ársins 2022.

Ég ætla í ræðu minni að ræða þau sjónarmið sem fram koma í nefndaráliti frá 4. minni hluta fjárlaganefndar. Það er hv. þm. Framsóknarflokksins, Silja Dögg Gunnarsdóttir, sem stendur að því áliti fyrir hönd Framsóknarflokksins í hv. fjárlaganefnd.

Eins og fram kemur í lögum nr. 123/2005 skal ríkisstjórn, eftir að hún er mynduð, móta fjármálastefnu sem ráðherra leggur fram á Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar svo fljótt sem auðið er, en þó eigi síðar en samhliða framlagningu næsta frumvarps til fjárlaga.

Takið eftir að það er hægt að leggja hana fram samhliða frumvarpi til næstu fjárlaga, þ.e. fjárlaga fyrir árið 2018.

Ályktun Alþingis um fjármálastefnu til fimm ára í senn skal leggja til grundvallar við tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun sem lögð er fyrir Alþingi ár hvert. Fjármálaáætlun liggur síðan til grundvallar fjárlagafrumvarpi sem lagt er fram af ríkisstjórn að hausti ár hvert.

Það ferli varðandi fjárlagafrumvarp þekkjum við hv. þingmenn mætavel.

Samkvæmt því liggur ekki á að afgreiða þá tillögu sem við ræðum. Það má í raun leggja tillöguna fram samhliða fjárlagavinnunni sem fram fer í haust. Síðan mun á morgun, ef ég man rétt, fara fram kynning á fjármálaáætlun og þá munum við hv. þingmenn sjá þær forsendur sem hæstv. ríkisstjórn gefur sér í ríkisfjármálaáætlun á næstu árum. Þar munum við sjá heildartekjurnar og þann afgang sem áætlaður er að verði ef þær forsendur á þeim tekjum sem þar eru lagðar fram ná fram að ganga. Þar ættum við að sjá rammann sem lagður er fram fyrir þá innviðauppbyggingu sem lögð er til að fari fram á næstu árum.

Að mínu mati hefði verið gott að geyma það að leggja þessa fjármálastefnu fram þar til við værum búin að sjá línurnar í fjárlagavinnu hæstv. ríkisstjórnar og átta okkur á hvaða mál hæstv. ríkisstjórn ætlar í raun og veru að forgangsraða til. Þar gætum við t.d. séð hvort nægt fjármagn væri til innviðauppbyggingar í landinu. Þá er ég til að mynda að tala um heilbrigðis-, mennta- og samgöngumál og aðra mikilvæga þætti eins og félagsmál, það sem snýr að málefnum aldraðra, öryrkja. Þar gætum við séð í fjárlagavinnu haustsins, ef við værum að vinna þessa fjármálastefnu samhliða, einhverjar línur skýrast um hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að vinna og áherslur í þeirri áætlun, séð hvort bæta eigi við til samgöngumála, fara í nauðsynlegar vegaumbætur, aðgerðir eins og Vestfjarðaveg nr. 60. Hvað með vegaframkvæmdir norður í Árneshreppi á Ströndum? Hvað með Berufjarðarbotn og ýmsa aðra þætti sem mikilvægt er að sjá hvort fjármagn sé lagt til? Þannig getum við haldið áfram að telja. Við gætum séð hvort ætti að forgangsraða til innviða eins og menntamála. Á að efla menntastofnanir víða um landið, framhaldsskóla, háskóla eða aðrar menntastofnanir? Á að efla heilbrigðisstofnanir víða um landið? Hversu mikið á að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga? Á að sameina greiðsluþátttöku lyfja- og lækniskostnaðar? Á að bæta við fleiri þáttum inn í greiðsluþátttöku sjúklinga, t.d. sálfræðikostnaði og öðru sem snýr að þverfaglegri þjónustu innan heilbrigðisstofnana og víðar í kerfinu? Hvað með málefni hjúkrunarheimila, heimaþjónustu við aldraða? Það er mikilvægt að það verði mjög aukið til þeirra og það séu skýr merki um það í næstu áætlunum, því að eins og kemur fram og allir hv. þingmenn vita er þetta ört stækkandi hópur í þjóðfélagi okkar og þjónustuþörfin mikil. Við þurfum að vera tilbúin til að bregðast við og veita þessu fólki þá þjónustu sem það á skilið.

Með þeim orðum mínum er ég samt ekki að segja að við eigum ekki að borga niður skuldir ríkisins, en okkur greinir á um hversu hratt eigi að vinna að því. Við sem stöndum að áliti 4. minni hluta fjárlaganefndar finnst of hratt farið í að borga niður skuldir ríkisins og erum hrædd um að það komi niður á mikilvægri innviðauppbyggingu á næstu árum.

Ég hef líka áhyggjur af þakinu sem fram kemur í fjármálastefnunni þar sem segir að árleg heildarútgjöld hins opinbera verði ekki umfram 41,5% af vergri landsframleiðslu á ári. Þá veltir maður fyrir sér: Hvað ef landsframleiðsla dregst saman? Á þá að draga saman í opinberri þjónustu? Eða hvernig yrði það gert? Er ætlunin þá að leysa þjónustuþætti ríkisins með einkaframkvæmdum? Er hugsunin að ef landsframleiðsla drægist saman ætti jafnvel að selja eignir? Hvernig ætti að bregðast við því ef landsframleiðsla drægist saman? Ef við ættum að vera undir því þaki sem sett er fram í stefnunni, hvernig ættum við að fjármagna innviðina?

Ég get ekki annað en tekið undir orð þeirra hv. þingmanna í stjórnarandstöðuliðinu sem hafa velt fyrir sér hvort hérna birtist okkur nýhfrjálshyggjustefna hæstv. ríkisstjórnar.

Við segjum mjög varhugavert að binda útgjöld við ákveðið þak.

Það kemur einnig fram í inngangi að nefndaráliti 4. minni hluta fjárlaganefndar að til hafi staðið að ríki og sveitarfélög gerðu með sér samkomulag og gengju út frá raunverulegum forsendum fyrir áframhaldandi lækkun skuldahlutfalls. Það kemur fram í álitinu að samkomulag náðist ekki og því telji 4. minni hluti fjárlaganefndar að markmið fjármálastefnu séu fullkomlega óraunsæ þar sem ljóst sé að sveitarfélög nái ekki að standa við sinn hluta afkomumarkmiða sem birt eru í fjármálastefnunni. Okkur finnst mjög gagnrýnivert að ríkisstjórn leggi fram einhliða markmið fyrir sveitarfélögin án samkomulags við þau. Það er í raun alvarlegt. Við vitum öll að kostnaður sveitarfélaga hefur verið að aukast verulega undanfarin ár. Þjónustustig sveitarfélaga í landinu er orðið mjög hátt. Þau hafa veitt aukna þjónustu, t.d. ef við horfum á grunnskólana. Aukin þjónusta er komin inn í þá. Málaflokkur einstaklinga með einhverjar fatlanir, skóli án aðgreiningar, allt þetta, hefur í för með sér, sem betur fer, að fleiri starfsmenn koma inn í grunnskóla til að sinna þessari þjónustu. Það hefur kostnað í för með sér. Það er mikilvægt að ríkið horfi til þess. Það hafa einnig verið gerðir kjarasamningar við ýmsar starfsstéttir innan sveitarfélaganna. Þetta felur í sér aukinn kostnað fyrir sveitarfélögin og hefur án efa áhrif á afkomu þeirra.

Auk þessa veita sveitarfélög þjónustu t.d. á málasviði aldraðra, hluta af þeirri þjónustu. Þau veita þjónustu til einstaklinga sem þurfa þjónustu vegna fötlunar og ýmsa aðra þjónustu.

Því er nauðsynlegt að þetta samtal eigi sér stað við sveitarfélögin, Samband íslenskra sveitarfélaga. Eins og fram kemur í nefndaráliti 4. minni hluta er mikilvægt að viðræðum ríkis og sveitarfélaga ljúki á þessu ári með því að auka hlutdeild sveitarfélaga í sköttum, m.a. í ljósi fjölgunar vanfjármagnaðra verkefna sem lögð hafa verið á sveitarfélögin, eins og áður sagði; grunnskólinn, aukin þjónusta innan hans, málefni fólks með fötlun og ýmislegt annað.

Við hv. þingmenn hljótum að vera sammála um að sú þjónusta verði veitt af öryggi og sé fjármögnuð. Því þarf tekjuskiptingin þarna á milli að vera í lagi.

Hvað varðar tekju- og útgjaldastefnuna telur 4. minni hluti að gera þurfi skýrari grein fyrir ráðstöfun þess svigrúms sem áætlað er að skapist á næstu árum. Fjórði minni hluti gagnrýnir hversu hratt ætlunin er að greiða niður heildarskuldir hins opinbera en áætlun gerir ráð fyrir að þær verði komnar undir 30% af vergri landsframleiðslu í árslok 2019 og verði ekki hærri en 26% af vergri landsframleiðslu í árslok 2022.

Enn fremur er 4. minni hluti ósammála því hversu hratt á að fara í þetta og er hræddur við hraða niðurgreiðslu, sem er auðvitað nauðsynleg til að borga niður skuldir, ég er ekki að segja að það sé ekki mikilvægt, en við gjöldum varhuga við því hversu hratt á að ganga til þeirra verkefna meðan við sjáum fréttir af slæmri stöðu í samgöngumálum, um þjónustu sem dregist hefur saman í heilbrigðisstofnunum víða um landið. Við sjáum fréttir af bágri stöðu Landspítala og ýmsa aðra þætti. Maður sér ekki merki um að verið sé að vinna að þessu. Eins og ég sagði þekkjum við öll fréttir af minni þjónustu heilbrigðisstofnana víða á landsbyggðinni, fréttir af Landspítala og of háum kostnaði sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Svona er hægt að halda áfram.

Við munum að öllum líkindum eftir því að allir flokkar, að mig minnir, ræddu mikilvægi þess að bæta í þá þætti ef þeir kæmust til valda á Alþingi. Það væri afskaplega gott í þessari umræðu ef t.d. hæstv. heilbrigðisráðherra væri hér og við hv. þingmenn sem förum í ræður gætum átt samtal og fengið svör við spurningum okkar um hvernig eigi að vinna að þeim markmiðum sem sett voru fram til að mynda í stjórnarsáttmála um mikilvæga þætti.

Mig langar að vitna í stjórnarsáttmálann. Maður veltir fyrir sér út af því litla svigrúmi sem er í þessari stefnu hvernig eigi að uppfylla þau atriði sem koma fram í stjórnarsáttmálanum. Með leyfi forseta, ætla ég að fá að lesa örlítinn bút úr stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar. Þar segir:

„Örugg og góð heilbrigðisþjónusta, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, verður forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Mótuð verður heilbrigðisstefna sem samhæfir og treystir heilbrigðisþjónustuna, bætir lýðheilsu og stuðlar að heilbrigði landsmanna. Stefnt skal að því að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustu. Uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut verður hraðað eins og kostur er og byggingu meðferðarkjarna lokið árið 2023. Aðgengi að sérfræðiþjónustu skal bætt í hinum dreifðu byggðum, meðal annars með því að efla fjarheilbrigðisþjónustu.

Staða heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar sjúklinga verður styrkt. Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu verður aukið, meðal annars með sálfræðiþjónustu á heilsugæslu og í framhaldsskólum. Stuðningur verður aukinn við börn foreldra með geðvanda og sálfræðiþjónusta felld undir tryggingakerfi í áföngum.

Sérstakt átak verður gert til að stytta biðtíma eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu.“

Já, þetta eru stór orð, mikilvæg orð. Ég get alveg tekið undir þau. En þetta kostar gríðarlegt fjármagn. Við verðum að vera tilbúin að veita það fjármagn inn í þessa þætti til að geta staðið við það sem kemur fram hér.

En ég sé ekki það svigrúm í fjármálastefnunni sem við ræðum sem þarf til þess að markmiðin nái fram að ganga. Þau markmið eru mjög virðingarverð og mikilvæg.

Maður sér ekki hvernig á að fjármagna þetta. Ég sé ekki merki um þessa forgangsröðun, sérstaklega ef við horfum á þakið. Ef maður veltir fyrir sér þeim þröngu skorðum sem þakið setur, 41,5% af vergri landsframleiðslu, segjum að það sé stefna að lækka greiðsluþátttökuhlutdeild sjúklinga í kerfinu, auka þættina undir það og efla heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Síðan drægist landsframleiðslan gríðarlega saman. Þakið er þetta. Hvernig ætlar þá hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. ríkisstjórn að standa við þennan stjórnarsáttmála?

Síðan væri einnig gott að geta átt samtal við hæstv. menntamálaráðherra um hvernig eigi að fjármagna umbætur í menntamálum, styðja enn frekar við háskólana, standast samkeppni, endurskoða reiknilíkön og leggja meiri áherslu á skapandi greinar, verknám og svo má áfram telja. En í stjórnarsáttmála hæstv. núverandi ríkisstjórnar segir, með leyfi forseta:

„Styðja skal háskólana í að halda uppi gæðum og standast alþjóðlega samkeppni um leið og samvinna og samhæfing íslenskra háskóla og vísindastofnana verður aukin. Endurskoða þarf reiknilíkön skólakerfisins með tilliti til mismunandi kostnaðar og fjölbreytts nemendahóps.

Huga þarf að þörfum grunn- og framhaldsskóla svo leggja megi frekari áherslu á kennslu í skapandi greinum, forritun, hönnun og verknámi, samhliða átaki í hefðbundnum greinum. Fjarnámskennsla verði þróuð enn frekar til að mæta ólíkum þörfum og aðstæðum námsmanna. Efla þarf stuðning við móðurmálskennslu tvítyngdra nemenda, samhliða kennslu íslensku sem annars máls.“

Ég sem menntaður grunnskólakennari og afar stolt af því starfi mínu og þeirri menntun minni tek heils hugar undir það sem fram kemur í þessari stefnuyfirlýsingu um mikilvægi þess að efla menntakerfið okkar. En ég geri mér jafnframt grein fyrir því, eftir að hafa starfað í grunnskólum í 13 ár sem er kannski ekki mjög langur tími en hann er þó nokkur, að þetta kostar fjármagn. Ég veit að skólastjórnendur vilja algjörlega standa þarna, en þá þarf tekjuskiptingin á milli ríkis og sveitarfélaga að vera í lagi. Það þarf samtal við sveitarfélögin, að þau séu með í ráðum þegar útdeila á fjármagni og ákveða hvernig fjármagn fer á milli þeirra til að þessi markmið, þarna eru líka verkefni sem eru einmitt á forræði sveitarfélaganna, nái fram að ganga í góða skólakerfinu okkar. Ég vil segja, þrátt fyrir alla umræðu oft á tíðum, að við eigum afar gott skólakerfi með frábæru starfsfólki. Ég leyfi mér að segja það þó að ég sé menntaður grunnskólakennari.

Maður spyr hvernig eigi að fjármagna þetta. Á að selja eignir til að reyna að fjármagna þetta, því að þakið setur því þröngar skorður? Ég held að mjög erfitt sé fyrir alla aðila að ákveða og sjá fram í tímann og vita hvernig kerfið og aðstæður eru. Við erum í núinu og þurfum að vera þar og geta verið með sveigjanleika ef eitthvað kemur upp á.

Tími minn er að verða búinn. Ég er ekki viss um að ég nái að klára þessa ræðu. Þá fer ég kannski í aðra.

Virðulegur forseti. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar segir einnig, með leyfi hæstv. forseta:

„Álag á samgöngukerfið hefur vaxið mikið undanfarin ár, einkum vegna fjölgunar ferðamanna. Í því ljósi verður aukinn kraftur lagður í uppbyggingu í samgöngumálum á öllum sviðum. Góðar samgöngur eru lykilþáttur í að bæta búsetuskilyrði og fjölga atvinnutækifærum um land allt.

Áhersla verður lögð á að bæta öryggi á vegum og stuðla að hagkvæmum og greiðum samgöngum um landið með því að nýta fjölbreytni og möguleika samgöngukerfisins í heild. Með því getur samgöngukerfið þjónað betur landsmönnum öllum auk þess sem unnt er að ná betur markmiðum um að dreifa ferðamönnum um landið og efla og styðja við atvinnusköpun sem víðast.“

Við þekkjum öll, sérstaklega á því þingi sem við erum á og vinnum okkar verk á, að það hefur verið mikil umræða um vöntun á fjármagni inn í samgöngumálin. Ég ætlaði í þessari 20 mínútna ræðu, sem mér fannst vera heil eilífð áður en ég fór í ræðustól, að ræða og vitna í orð hæstv. samgönguráðherra, því að ég átti samtal við hann um daginn um samgöngumálin, og nefna sem dæmi verkefni sem eru talin í milljörðum, að klára þau. En ræðutími minn er búinn. Mér finnst með ólíkindum að 20 mínútur séu liðnar, ég var að stíga upp í ræðustól. En ég styð orð þeirra hv. þingmanna sem hafa talað, þetta plagg, þessi fjármálastefna þarf að fara aftur til umræðu í hv. fjárlaganefnd til frekari vinnslu og ígrundunar.