146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:41]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst í henni ágæt nálgun á það sem er kjarni málsins, sem eru útgjöldin og vissulega tekjurnar líka sem við ætlum að horfa á núna til næstu fimm ára. Ég er sammála hv. þingmanni að það er miður að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafi ekki meiri áhuga á samfélaginu næstu fimm ár en svo að þeir sjá sér ekki fært að taka þátt í þessum umræðum. Gusan okkar hér áðan skilaði einum hv. þingmanni í hálftíma.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í útgjaldaþakið. Eins og hv. þingmaður kom inn á er sama hvernig árar, vel eða illa, það er alltaf þetta þak á hver útgjöldin verða. Ef eitthvað má segja um íslenskt efnahagskerfi þá er það ekki endilega að það sigli bara lygnan sjó. Sér hv. þingmaður ekki ákveðin hættumerki í því (Forseti hringir.) ef það er búið að geirnegla hversu hátt hlutfallið má verða?