148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnuskilyrði farmanna.

455. mál
[19:01]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnuskilyrði farmanna. Um er að ræða breytingar á sjómannalögum, nr. 35/1985, lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningsskipa, nr. 76/2001, og lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, svo unnt verði að fullgilda alþjóðasamþykktina. Alþjóðasamþykktin stafar frá Alþjóðavinnumálastofnuninni og var samþykkt á 94. þingi stofnunarinnar árið 2006. Ísland var meðal þátttakenda á þinginu. Tvær breytingar hafa verið gerðar á samþykktinni, árin 2014 og 2016.

Stefnt er að fullgildingu samþykktarinnar hér á landi á þeim atriðum sem eru skuldbindandi fyrir aðildarríki, þ.e. reglum og viðmiðum um reglurnar að teknu tilliti til þeirra breytinga sem gerðar voru árin 2014 og 2016. Ekki er stefnt að fullgildingu sérstakra leiðbeininga samþykktarinnar enda eru þær ekki skuldbindandi fyrir aðildarríki. Í frumvarpinu eru því aðeins lagðar til lágmarksbreytingar á lögum. Verði frumvarpið að lögum þarf í kjölfarið að gera breytingar á reglugerðum á sviðinu og móta þar stefnur í vissum tilvikum. Samþykkt frumvarpsins og breytingar á reglugerðum og stefnumótun eru forsendur þess að unnt verði að fullgilda samþykktina. Rétt er þó að geta þess að margar þeirra reglna sem samþykktin kveður á um eru nú þegar uppfylltar af íslenskum rétti.

Eins og fram hefur komið tekur samþykktin til farmanna sem eru starfsmenn á farþega- og flutningaskipum. Samþykktin skiptist í fimm kafla og gerð verður grein fyrir hverjum kafla fyrir sig og hvaða lagabreytingar eru lagðar til í frumvarpinu vegna ákvæða þeirra.

Fyrsti kafli samþykktarinnar inniheldur lágmarkskröfur sem farmenn þurfa að uppfylla til að mega vinna um borð í skipum. Í kaflanum eru fjórar reglur, þ.e. regla 1.1 um lágmarksaldur, regla 1.2 um læknisvottorð, regla 1.3 um menntun, þjálfun og hæfni og regla 1.4 um skráningu og ráðningu. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 3. mgr. 8. gr. sjómannalaga vegna reglu 1.1, 4. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa vegna reglu 1.2 og lögð er til ný grein, 10. gr. A sömu laga, vegna reglu 1.4. Ekki var talin þörf á lagabreytingu vegna reglu 1.3 enda verður að telja regluna uppfyllta að íslenskum rétti.

Annar kafli inniheldur skilyrði fyrir ráðningu. Í kaflanum eru átta reglur, regla 2.1 um ráðningarsamninga farmanna, regla 2.2 um laun, regla 2.3. um vinnutíma og hvíldartíma, regla 2.4. um orlofsrétt, regla 2.5 um heimsendingu, regla 2.6 um bætur til farmanna ef skip tapast eða ferst, regla 2.7 um mönnun og regla 2.8 um aukna möguleika á starfsframa og fagkunnáttu auk fjölgunar atvinnutækifæra sem standa farmönnum til boða. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 2. gr. og 6. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, vegna reglu 2.1., breytingar á 30. gr. og 1. mgr. 32. gr. sömu laga vegna reglu 2.2. Þá er lagt til að tvær nýjar greinar, 7. gr. C og 7. gr. D, bætist við lög um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, vegna reglna 2.4. og 2.5. Að auki eru gerðar breytingar á 2. gr. sjómannalaga vegna ákvæða kaflans. Lagabreytingar voru taldar óþarfar vegna reglu 2.3. um vinnutíma og hvíldartíma, vegna reglu 2.6. um bætur til farmanna ef skip tapast eða ferst, vegna reglu 2.7. um mönnun og vegna reglu 2.8. um aukna möguleika á starfsframa og fagkunnáttu auk fjölgunar atvinnutækifæra sem standa farmönnum til boða, enda verður að telja þær nú þegar uppfylltar að íslenskum rétti og/eða þess eðlis að stefnumótunar frekar en lagasetningar getur verið þörf.

Þriðji kafli inniheldur reglur um vistarverur og tómstundaðstöðu, fæði og þjónustu áhafna. Í kaflanum eru tvær reglur, regla 3.1 um vistarverur og tómstundaaðstöðu og regla 3.2 um fæði og þjónustu áhafna. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á annars vegar 3. mgr. 3. gr. laga um eftirlit með skipum vegna reglu 3.1 og hins vegar á 61. gr. sjómannalaga vegna reglu 3.2.

Fjórði kafli inniheldur reglur um heilsuvernd, læknishjálp, velferð og tryggingavernd. Í kaflanum eru fimm reglur. Regla 4.1 um læknishjálp um borð í skipi og í landi, regla 4.2 um ábyrgð útgerðarmanna, regla 4.3 um heilsuvernd, öryggi og slysavarnir, regla 4.4 um aðgang að velferðarmiðstöðvum í landi og regla 4.5 um tryggingavernd. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 2. gr. sjómannalaga þannig að 33.–41. gr. laganna gildi einnig þegar við á um þá sem gegna öðrum störfum á skipum en skipsstörfum og þá er lögð til ný grein, 7. gr. E, sem bætist við lög um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, þar sem tryggt er að allir skipverjar sem sigla undir íslenskum fána njóti sömu réttinda. Aðrar efnislegar lagabreytingar voru taldar óþarfar vegna reglna kaflans enda verður að telja reglur kaflans nú þegar uppfylltar að íslenskum rétti þótt nauðsynlegt kunni að vera að útfæra einhver atriði þessa kafla sem og annarra með reglugerð svo fullgilda megi samþykktina.

Varðandi 5. kafla þá inniheldur hann reglur um skyldur um framkvæmd og framfylgd. Í kaflanum eru þrjár reglur. Regla 5.1 um skyldur fánaríkis, regla 5.2 um hafnríkisskyldur og regla 5.3 um skyldur í tengslum við útvegun vinnuafls. Lagabreytingar eru ekki nauðsynlegar vegna þeirra reglna sem fram koma í kaflanum, utan 11. gr. frumvarpsins, en við breytingar á reglugerðum á sviðinu þarf að gæta að reglunum og viðmiðum við þær svo unnt verði að fullgilda samþykktina.

Rétt er að geta þess að í 10. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012, er m.a. kveðið á um að stofnunin skuli hafa eftirlit með að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðasamningum, samanber 3. tölulið 1. mgr. þeirrar greinar. Þá er í 9. gr. sömu laga kveðið á um verkefni Samgöngustofu tengd siglingum. Ljóst er að Samgöngustofu ber að framkvæma og framfylgja þeim reglum sem 5. kafli samþykktarinnar kveður á um.

Virðulegi forseti. Eins og fyrr sagði eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á sjómannalögum, lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa og lögum um eftirlit með skipum. Verði frumvarpið að lögum og nauðsynlegar reglugerðarbreytingar gerðar í kjölfarið sem og stefnumótun næst það markmið samþykktarinnar að tryggja farmönnum þau vinnuskilyrði sem samþykktin mælir fyrir um. Þótt meginmarkmið samþykktarinnar sé að tryggja farmönnum tiltekin réttindi þá er samþykktin ekki síður nauðsynleg svo að Ísland geti sinnt virku hafnarríkiseftirliti, þ.e. haft eftirlit með því að önnur ríki fari eftir ákvæðum samþykktarinnar. Þegar samþykktin hefur verið fullgild af hálfu Íslands fær Samgöngustofa aðgang að kerfum Parísarsamkomulagsins um hafnarríkiseftirlit sem varða þau atriði sem taka til samþykktarinnar. Er sá aðgangur mjög mikilvægur fyrir allt hafnarríkiseftirlit.

Þess ber að geta að önnur Norðurlönd, þ.e. Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, hafa öll á síðustu árum fullgilt samþykktina auk fjölda annarra ríkja í Evrópu. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafa 84 ríki fullgilt samþykktina og ráða þau yfir 91% af skipastóli heimsins miðað við brúttótonnatölu.

Virðulegi forseti. Ég hef hér gert grein fyrir efni frumvarpsins og þeirri alþjóðasamþykkt sem hér um ræðir og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.