148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[19:20]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ágætu framsögu þessa mjög svo mikilvæga máls. Þar eru reifuð fjölmörg markmið og verkefni sem mörg hver gætu reynst sérstaklega mikilvæg byggðunum til framtíðar. Það eru fjölmörg atriði í þingsályktunartillögunni sem gaman væri að ræða sérstaklega við ráðherra. Ég mun koma inn á nokkur þeirra í ræðu minni á eftir. En þau sem ég vildi sérstaklega spyrja ráðherra út í og það sem fyrst vakti athygli mína er í II. kafla, d-lið B-hlutar, þar sem talað er um að tryggja fjármuni til uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða með gjaldtöku. Má skilja þetta markmið sem svo að ríkisstjórnin hafi komið sér saman um hvernig eigi að standa að gjaldtöku í ferðaþjónustu? Og þá á ferðamannastöðum? Getur ráðherra greint nánar frá því hvernig eigi að vinna að því markmiði?