148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[20:35]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég myndi vilja óska þess að ég fengi að ráða heilmiklu um þetta, þ.e. ég væri einhvers konar listastjóri landsbyggðarinnar, en það er auðvitað ekki þannig. Þessi liður, list fyrir alla úti á landsbyggðinni, er svo sem ekkert sundurliðaður. En ég held þetta snúist ekki að svo miklu leyti um að flytja stofnanir út á land, enda held ég ekki að hv. þingmaður hafi verið að meina það, heldur flytja atburði út á land. Þar er ég honum innilega sammála, hvort sem það heita farandsýningar eða farandtónleikar, um að nota þessa mikilvægu stofnanir, hvort sem þær heita Listasafn Íslands, Óperan eða eitthvað annað. Ég tel þetta líka vera miklu fjölþættara og nefni listkennslu. Það er t.d. listkennsla fyrir fatlaða. Það er líka hægt að efla listkennslu í skólum. Síðan eru það allar hátíðirnar sem eru úti á landi. Við þekkjum það mætavel að það er varla til það byggðarlag á Íslandi sem er ekki með einhvers konar tónlistarhátíð eða listviðburði eins og t.d. á Seyðisfirði og víðar.

Það eru að mér skilst 330 sýningar og söfn á landinu. Þá er trúlega meiri hluti í tölum talið úti á landi en ekki í Reykjavík þannig að af nógu er að taka. Ég er alveg sannfærður um að þegar verður farið að útdeila þessum fjármunum og forgangsraða þá komi allt þetta meira eða minna til álita á þessum fimm eða sex árum sem þessi áætlun gildir þótt ég hafi ekki nefnt nema lítið af þessu.