148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[20:37]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir hans svör. Ég meinti auðvitað ekki flutning stofnana, það var alveg rétt skilið hjá hv. þingmanni. Ég var að meina það að þessar stofnanir sem eru staðsettar hér, oft stærstu og öflugustu stofnanirnar sem fá mest fjármagn frá hinu opinbera, fara að mínu viti allt of lítið út á land. Ég vildi spyrja hvort þessi aur sem þarna er nefndur, 32,5 milljónir undir C.15, sé til þess að niðurgreiða þessar ferðir eða hvort þetta sé eitthvað annað. Ég geri mér grein fyrir því að hv. þingmaður hefur kannski ekki svör við þessu. Hver er þá hans skoðun á því að þessar stofnanir fari meira út á land? Ég veit það kostar mikið en það er nú bara þannig að íbúar í smærri byggðarlögum sem eru kannski langt frá höfuðborgarsvæðinu fá ekki notið margra þessara hluta á við höfuðborgarbúa. Ég held að söfn úti á landi séu kannski ekki greidd af ríkinu mörg hver, ég held að það séu frekar sveitarfélögin sem standi að greiðslu á kostnaði við þau þannig að þessu tvennu er kannski ekki saman að jafna.

Annað sem ég myndi vilja spyrja hv. þingmann um er afstaða hans varðandi flutning starfa, verkefna og stofnana, út á land, fyrst hann nefndi það sjálfur. Hver er hans skoðun á því að flytja stofnanir út á land? Hver er hans skoðun á því að flytja umhverfisráðuneytið t.d. í stærsta byggðakjarna utan Reykjavíkur, þ.e. til Akureyrar? Hver er hans skoðun á þessari hugmynd sem kom hér upp áðan að flytja það þangað? Það tæki þá einhvern tíma auðvitað og aðlögun, en hver er hans skoðun á því? Það væri gert til að dreifa einmitt völdum, til að dreifa störfum og til að dreifa þekkingu sem ég tel nú ekki síður mikilvægt, að þekkingin sé ekki öll á þessu horni landsins.