148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[22:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nú allt að skýrast og skána með hverju andsvarinu þannig að þetta hefst vonandi núna. Ég þakka ráðherra fyrir þetta. Ég held að ráðherra hafi verið býsna skýr hvað það varðar að það sem snýr að þeim tímaramma sem gildir varðandi byggðaáætlun og svo fjármálaáætlun er allt fullfjármagnað sama hvað það heitir, hvort sem það er mennta- og menningarmálaráðuneytið eða eitthvað annað.

Varðandi tryggingagjaldið er hins vegar augljóst á máli ráðherra að samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn hafa ekki viljað fara þessa leið. Ég ætla reyndar aðeins að mótmæla því að ekki hafi verið hægt að gera þetta. Ráðherra nefnir Noreg, hvernig Noregur er í laginu eða legu þess lands. Það hefði til dæmis verið algjörlega tilvalið að taka Vestfirði sem tilraunaverkefni með tryggingagjaldið svo dæmi sé tekið. Eða Langanes, Melrakkasléttu, svo að annað dæmi sé tekið. Þetta eru landshlutar sem auðvelt er að taka út og fara í slík tilraunaverkefni á. En það er alveg greinilegt að ekki var áhugi á því hjá samstarfsflokkum ráðherra.