148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands o.fl.

468. mál
[22:50]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra. Það er gott að heyra að haft var samráð við Persónuvernd, þrátt fyrir að það sé ekki tekið fram. Ég er í raun ekki með aðrar spurningar, meira svona athugasemdir. Mig langar að koma því á framfæri að mér þykir leiðinlegt hve seint þetta mál kemur fram, sérstaklega í ljósi þess hversu mikilvægt það er og viðamikið og hvað við eigum í raun lítinn tíma eftir.

Ég tel mikilvægt að gefa góðan umsagnartíma fyrir svona stórt mál; að við séum ekki að flýta því í gegn og að hagsmunaaðilar komi að athugasemdum sínum og við getum unnið þetta mál vel. Ég mun sem formaður velferðarnefndar leggja mig alla fram um að gera þetta á faglegan og góðan hátt. Ég skil að þetta er mikilvægt. En ég vildi bara koma því að að það er ofboðslega erfitt að leggja svona stórt frumvarp fram og gefa okkur svona rosalega lítinn tíma til að afgreiða það.