150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[16:10]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur þessa sérstöku umræðu um stöðu hjúkrunarheimilanna og Landspítala. Þetta er sannarlega þörf umræða þótt mér finnist hún á köflum hafa verið hér í dag býsna bölsýn, bölsýnni en þörf er á. Ég vil þakka hæstv. ráðherra hennar mikilvæga innlegg í umræðuna.

Ég ætla að nefna fjóra þætti sem eru svo sannarlega skýr vísbending um að verið sé að mæta þessari miklu áskorun og það er sannarlega áskorun að byggja upp hjúkrun og endurhæfingu með vaxandi öldrun og aukinni hjúkrunarþyngd eins og fram hefur komið í umræðunni. Í fyrsta lagi má fara í fjárlögin, þótt þau séu ekki alltaf gagnsæ á öllum sviðum, og sjá aukin framlög, verulega aukin framlög, til hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu um 25% frá 2017–2020. Það er vissulega skýr vísbending um viðleitni, kraft og áhuga ráðherrans á að beita sér í þessum málaflokki.

Í öðru lagi er búið að semja. Það má rekja þessa umræðu hér langt aftur til skýrslu Ríkisendurskoðunar 2014 þar sem talað er um að skilgreina þurfi þjónustuna vel og skýra mjög vel kröfur um magn og gæði. Þess vegna vil ég fagna því að búið sé að semja og í þriðja lagi fagna því sérstaklega að gerður hafi verið samstarfssamningur um fagleg málefni og greiningarvinnu sem er algjört lykilatriði í framhaldinu. Í fjórða lagi vil ég segja, og það hefur komið fram hjá mörgum í umræðunni og er þessi nýja nálgun: Við leysum ekki allt með því að byggja ný hjúkrunarheimili. Hæstv. ráðherra sagði síðast í gær í umræðu að við verðum að beita fjölbreyttari úrræðum og heimahjúkrun ekki síst.