150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla o.fl.

40. mál
[17:05]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lögum um tryggingagjald og lögum um ársreikninga. Í stuttu máli er þetta afskaplega einfalt mál. Hér er settur fram sá jákvæði hvati að þau fyrirtæki sem standi sig vel samkvæmt skilgreiningu laganna í jafnréttismálum geti sótt um hálfs prósents lækkun á tryggingagjaldi. Þetta myndi samsvara því, ef öll fyrirtæki nýttu sér þennan frádráttarmöguleika, að tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldi lækkuðu um 8 milljarða, þ.e. um væri að ræða 8 milljarða skattalækkun fyrir atvinnulífið. Þetta mál er auðvitað fyrst og fremst lagt fram í þeim tilgangi að bæta enn frekar jafnrétti á vinnumarkaði, styrkja stöðu kvenna á vinnumarkaði því að þrátt fyrir að Ísland sé vissulega í fyrsta sæti enn þegar kemur að jafnrétti kynjanna þá vantar ýmislegt upp á varðandi jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Frumvarpið er líka sett fram til að svara þeirri gagnrýni að jafnréttismálin þurfi alltaf að vera íþyngjandi fyrir atvinnulífið eins og gjarnan hefur verið nefnt, t.d. í umræðu um jafnlaunavottun og fleiri þætti. Ég er reyndar ekki sammála þeirri gagnrýni, tel þvert á móti að jafnrétti á vinnumarkaði sé fyrirtækjum almennt til ágóða enda hefur ítrekað verið sýnt fram á að jafnrétti, fjölbreytni innan fyrirtækja styrkir afkomu þeirra, bætir starfsanda og svo mætti lengi áfram telja.

En það er líka hægt að nálgast kvaðir, getum við sagt, um jafnrétti með jákvæðum hætti með því að umbuna fyrirtækjum sem standa sig vel. Skilyrðin sem sett eru eru í sjálfu sér ekki mjög flókin. Þau eru þá í fyrsta lagi að fyrirtækið hafi gilda jafnréttisáætlun sem öllum fyrirtækjum með fleiri en 25 starfsmenn ber raunar skylda til að hafa samkvæmt núgildandi lögum. Í öðru lagi að hlutfall stjórnenda af hverju kyni í framkvæmdastjórn sé ekki hærra en 60% ef stjórnendur eru fleiri en fjórir. Í þriðja lagi að hlutfall annarra stjórnenda af hverju kyni séu ekki hærri en 60% ef þeir hinir sömu stjórnendur eru fjórir eða fleiri. Í fjórða lagi að hlutfall stjórnarmanna og varamanna í stjórn af hverju kyni sé ekki hærra en 60% ef stjórnarmenn eru fjórir eða fleiri. Það kemur í raun og veru bara inn á núgildandi lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og stofnana. Í fimmta lagi að fyrirtæki hafi gilda jafnlaunavottun, beri því skylda til að hafa slíka vottun samkvæmt gildandi lögum. Það er tekið sérstaklega fram í frumvarpinu að fyrirtæki með færri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli þurfi einmitt ekki að uppfylla þetta síðasta skilyrði til að geta fengið engu að síður lækkun tryggingagjalds, séu önnur skilyrði laganna uppfyllt.

Það er enginn vafi á því að út frá hagsmunum ríkissjóðs er þetta skynsamleg leið til að ýta undir enn frekara jafnrétti á vinnumarkaði. Það er auðvitað svo að þrátt fyrir góðan árangur að mörgu leyti búum við enn þá við umtalsverðan kynbundinn launamun. Við búum líka við umtalsverðan hreinan launamun kynjanna, konur eru enn með 15–20% lægri laun en karlar, m.a. vegna lakari framgangs á vinnumarkaði vegna þess mikla kynjahalla sem er í stjórnunarstöðum fyrirtækja. Þessi kostnaður leiðir á endanum til þess að konur reiða sig í mun meira mæli á bætur frá almannatryggingum eða tekjur frá almannatryggingum þegar komið er á eftirlaun en karlar. Með því að styrkja enn frekar jafnrétti á vinnumarkaði, draga úr þessum launamun kynjanna sem enn er viðvarandi, draga úr heildarlaunamun, sem er m.a. vegna minni eða lakari framdráttar eða glerþaks eins og við gjarnan köllum það, má leiða að því líkur að kostnaður almannatrygginga þegar fram í sækir muni minnka. Þó svo að hér sé um skattalækkanir fyrir atvinnulífið að ræða, tekjuskerðingu, ef mætti orða það svo, gagnvart þeim tekjum sem renna til almannatrygginga, mætti vænta þess að útgjöld almannatrygginga gætu einnig lækkað.

Ég held að þetta sé mjög gott mál og vonast til að það fái víðtækan stuðning í þinginu. Hér er um jákvæðan hvata að ræða, skattalækkun fyrir atvinnulífið sem fyrirtækjum er í sjálfsvald sett að sækja sér með því að setja sér skýr, einföld markmið í jafnréttismálum í daglegum rekstri sínum. Ég vænti þess að lokinni þessari umræðu að frumvarpið gangi til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og hlakka til að taka það til umræðu hér síðar í vor, vonandi með góðum stuðningi þingmanna.