150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

þjóðsöngur Íslendinga.

47. mál
[17:11]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þjóðsöng Íslendinga, nr. 7/1983. Markmiðið með frumvarpinu er að afnema takmarkanir sem eru í lögum á því með hvaða hætti megi flytja þjóðsönginn. Það eru kannski ekki allir Íslendingar meðvitaðir um það en það er sem sé bannað samkvæmt landslögum að flytja hann öðruvísi en í upprunalegri mynd. Sagan sem ég hef heyrt af tilurð laganna er sú að leikstjórinn Hrafn Gunnlaugsson leikstýrði kvikmynd snemma á níunda áratug síðustu aldar og þótt það sé kannski ekki frétt til næsta bæjar að kvikmynd eftir Hrafn Gunnlaugsson fari í taugarnar á einhverjum stjórnmálamanni þá fór atriði í þeirri mynd svo mikið í taugarnar á þáverandi forsætisráðherra að hann bannaði öllum Íslendingum, eða lagði fram frumvarp sem Alþingi samþykkti, að flytja þjóðsönginn öðruvísi en í upprunalegri mynd. Sömuleiðis voru settar takmarkanir á það hvernig mætti nota hann. Það segir í 3. gr. þessara laga að það sé ekki heimilt að nota þjóðsönginn á nokkurn hátt í viðskipta- eða auglýsingaskyni. Í frumvarpinu er lagt til að 3.–6. gr. þessara laga, sem er þorrinn af þeim reyndar, verði felldar brott. Það eru þær greinar sem snúast um þessar takmarkanir.

Það er rétt að geta þess þannig að það sé enginn misskilningur, viljandi eða öðruvísi, að þjóðsöngur Íslendinga verður áfram samkvæmt lögunum „Ó, guð vors lands“, ljóð eftir Matthías Jochumsson og lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar. Sömuleiðis er viðhaldið 2. gr. sömu laga sem kveður á um að þjóðsöngurinn sé eign íslensku þjóðarinnar og að forsætisráðuneytið fari með umráð yfir útgáfurétti á honum. Allt í góðu með það.

Í 3. gr. laganna segir að ekki megi birta eða flytja þjóðsönginn í annarri mynd en hinni upprunalegu og það megi ekki nota hann á nokkurn hátt í viðskipta- eða auglýsingaskyni. Nú tel ég persónulega engar líkur á því að þessi lög standist núgildandi stjórnarskrá, alla vega mjög litlar líkur á því. Það er reyndar ekki hægt að koma mér á óvart hvernig Hæstiréttur túlkar tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar með hliðsjón af hinum ýmsum málum sem hafa komið til kasta dómstóla hingað til, sér í lagi hvað varðar svokallaðan hatursáróður og meiðyrði. En ég tel þó að ef þessum takmörkunum væri framfylgt af einhverri alvöru á Íslandi myndu dómstólar ekki túlka þessi lög í samræmi við núgildandi ákvæði stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi. Á þessum tíma var þó ákvæðið um tjáningarfrelsi öðruvísi en nú, það var fjallað um prentfrelsi, sem var túlkað svona eða hinsegin, þannig að eflaust hefur þetta staðist tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar sem var í gildi þegar þessi lög voru sett.

Við gerð þessa máls hefur orðið umræða um það og hefur svolítið gætt þess misskilnings að hér sé lagt til að þjóðsöngurinn verði ekki þjóðsöngurinn eða að það eigi að draga úr virðingu hans. Hvorugt er rétt. Þjóðsöngurinn er samkvæmt frumvarpinu áfram sama lag og sama ljóð með sama heiti. Hann er áfram í eign íslensku þjóðarinnar og forsætisráðuneytið fer áfram með umráð yfir útgáfurétti á honum. Þá hefur orðið eilítil umræða um að það eigi að heimila einhvern veginn að níða þjóðsönginn. Í fyrsta lagi verð ég bara að minna á það hvað tjáningarfrelsi þýðir. Tjáningarfrelsi þýðir ekki það að maður hafi eitthvert góðfúslegt leyfi yfirvalda til að segja það sem ekki fer í taugarnar á neinum. Það felur beinlínis í sér sérstaka vernd fyrir tjáningu sem fer í taugarnar á öðrum og öðrum finnst ómakleg, ómálefnaleg og ósönn. Tjáningarfrelsi þýðir ekki nokkurn skapaðan hlut ef ekki réttinn til að segja hluti sem öðrum er illa við að maður segi.

En fyrir utan það þá finn ég einfaldlega ekkert í þessum gildandi lögum sem á nokkurn hátt verndar virðingu þjóðsöngsins. Það að flytja þjóðsönginn í annarri mynd en hinni upprunalegu er ekki að gera lítið úr þjóðsöngnum. Það er ekki vanvirðandi meðferð á þjóðsöngnum. Sömuleiðis það að nota þjóðsönginn á einhvern hátt í viðskipta- eða auglýsingaskyni, það er ekki heldur vanvirðandi fyrir þjóðsönginn og gerir á engan hátt lítið úr honum. Þarna held ég að sé hreinlega einhver gömul sovésk hugsun að baki, að allt sem er í viðskipta- eða auglýsingaskyni sé á einhvern hátt illt eða skítugt. Svo er einfaldlega ekki, virðulegi forseti. Það eru til þjóðríki hvers þegnar eru mun meira fyrir að nýta sín þjóðríkistákn, svo sem fána eða þjóðsöng, í daglegu lífi. Flagga mun oftar en við, allir borgarar landsins þekkja þjóðsönginn í gegn og syngja hann reglulega við ýmis tilefni, t.d. í skólum og þess háttar og hvort tveggja notað í viðskipta- eða auglýsingaskyni. Það er talið þessum þjóðríkistáknum til tekna, það er virðingarmerki, ekki vanvirðing að nota þjóðsönginn eða fánann til að upphefja eitthvað annað. En af einhverjum ástæðum er hérna gömul og að mínu mati svolítið sovésk pæling í gangi í íslensku samfélagi um að viðskipti og auglýsingar séu á einhvern hátt upprunnin frá hinu illa. Ég er einfaldlega ósammála því.

Það er ákveðin kaldhæðni fólgin í því enn fremur að hafa bann við því að þjóð sem lögum samkvæmt á þjóðsönginn noti þjóðsönginn eins og þeirri sömu þjóð sýnist. Ég veit svo sem ekki nákvæmlega hvernig þetta var hugsað upprunalega eða hvað nákvæmlega var átt við með því að þjóðsöngurinn væri eign íslensku þjóðarinnar nema þá að það myndi þýða að þessi sama þjóð hefði rétt til að syngja þennan þjóðsöng eins og henni sýndist og reyndar bara hver borgari sem er. Mér finnst alla vega afskaplega skrýtið að það séu lög sem segja við mig sem borgara landsins að ég eigi þennan þjóðsöng en ég megi ekki gera neitt við hann. Þetta er eina lagið að mér vitandi í landslögum sem mér er sérstaklega bannað að flytja á einhvern öðruvísi hátt en hinn upprunalega. Það er skrýtinn eignarréttur á ferð þar, þykir mér.

Eins og ég nefndi áðan tel ég ekki líklegt að þau ákvæði sem hér er lagt til að verði felld brott standist tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. En það eru fern rök fyrir því að fjarlægja þau úr lögum samt sem áður og er getið um þau í greinargerð. Í fyrsta lagi hafa borgarar landsins rétt á því að geta lesið landslög án þess að sæta innihaldslausum hótunum um sektir og fangelsisrefsingu. Þegar borgarinn les landslög á hann að geta gert ráð fyrir því að það þýði það sem þar standi. Okkur ber að fjarlægja löggjöf sem gefur villandi eða rangar upplýsingar um raunverulega réttarstöðu í landinu.

Í öðru lagi er ekki hægt að tryggja fyrir fram að dómstólar, jafnvel hinn háheilagi Hæstiréttur, komist að réttri niðurstöðu gagnvart tjáningarfrelsisákvæðinu miðað við söguna hingað til. Þótt sá sem hér standi sé afskaplega viss í sinni sök um að þetta standist ekki stjórnarskrá þá er Hæstiréttur stundum, eins og reynslan sýnir, ekki alveg á sömu línu og sá sem hér stendur í tjáningarfrelsismálum, ekki frekar en Íslendingar almennt ef út í það er farið.

Í þriðja lagi verður líka að gera ráð fyrir því að hinn almenni borgari líti svo á að landslög séu almennt í gildi. Þegar borgarinn les eitthvað í lögum þá gerir væntanlega hann ráð fyrir að það sé í gildi. Það á ekki að þurfa að vera einhver stjórnarskrársérfræðingur til að geta trúað því að það gildi sem þar standi.

Í fjórða lagi, sem er kannski mikilvægast, hefur tilvist þessa banns réttaráhrif á einstaklinga áður en kemur til kasta dómstóla. Það er reyndar nýlegt dæmi sem var kveikjan að því að sá sem hér stendur fór að klambra saman þessu frumvarpi. Sumarið 2018 var mögulegt brot Ríkisútvarpsins á lögunum til sérstakrar skoðunar af hálfu yfirvalda. Það eru ákveðin réttaráhrif sem Ríkisútvarpið varð fyrir. Það var fréttaumfjöllun um þetta sem hefur væntanlega gefið almenningi þá hugmynd að þeim væri bannað að flytja þjóðsönginn eins og þeim sýndist. Það að vera tekinn til sérstakrar skoðun af hálfu yfirvalda er íþyngjandi, jafnvel ef eftir eitthvert lagabrölt í gegnum dómstóla og hugsanlega alla leið upp í Hæstarétt þá myndi maður á endanum verða sýknaður af því ægilega broti að syngja þjóðsönginn öðruvísi en einhver vildi, einhver forsætisráðherra vildi árið 1982 eða 1983 eða hvað það var. Af þeim ástæðum telur sá sem hér stendur og flutningsmenn frumvarpsins það algerlega óverjandi að refsing liggi við því broti að tjá þjóðsönginn með þeim hætti sem er bannaður samkvæmt lögunum.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti. Mér finnst þetta einfalt mál. Ég vona að frjálslyndari armur Sjálfstæðisflokksins brjóti nú odd af oflæti sínu og fara að styðja góð frelsismál Pírata í staðinn fyrir að vera básúna að við séum allir vinstri menn svokallaðir. En það er ekki mitt að segja Sjálfstæðisflokknum fyrir verkum.

Að því sögðu óska ég eftir því að þetta mál fari til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Að lokum vil ég telja upp flutningsmennina. Þeir eru hv. þingmenn Helgi Hrafn Gunnarsson, Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson og Jón Steindór Valdimarsson.