150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:56]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er mætavel meðvitaður um að alls konar dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé allt í lagi að hafa þjóðkirkju og það sé allt í lagi að ívilna þeim þjóðkirkjum. Ég veit þetta. Að mér vitandi hef ég ekki sagt neitt sem er í andstöðu við þá staðreynd og ég bara lít á hana sem staðfesta staðreynd. Aftur á móti er varla umdeilt að hér á Íslandi, með lögum, ívilnum við sérstaklega þjóðkirkjunni, á ákveðinn grundvallarhátt. Ég man nú ekki nákvæmlega hvað lögin heita en þingmenn fara, að mig minnir árlega eða annað hvert ár eða eitthvað því um líkt, sérstaklega og tala við þjóðkirkjuna um hennar vandamál og hennar stöðu og allt það. Nú geta þingmenn farið út í bæ og talað við þá sem þeim sýnist, það er reyndar hluti af starfinu, beinlínis hluti af skyldum þeirra. Þeir geta alveg farið til Félags múslima og Ásatrúarfélagsins og hvað eina. En þegar við erum að setja lög sem sérstaklega ívilna einu trúfélagi umfram önnur hlýtur að koma til kasta 65. gr., alla vega af og til, alla vega í einhverjum tilfellum. Annars veit ég ekki nákvæmlega hvað það er sem 65. gr. á að gera, ef hægt er að ívilna fólki hvort sem er. Í því felst óhjákvæmilega mismunun

Hv. þingmaður nefnir hér ítrekað, eins og reyndar aðrir þingmenn, að þjóðkirkjan beri ákveðnar skyldur. Gott og vel, en hún ber skyldur sem eðli málsins samkvæmt henta þeim sem fylgja þeirri trúarsannfæringu eða alla vega þeirri félagsaðild sem felst í þjóðkirkjunni og hennar störfum.

Nú get ég tekið sjálfan mig sem dæmi. Ég er ekki í þjóðkirkjunni, ég aðhyllist ekki kennisetningar hennar — eða reyndar aðhyllist ég sumar þeirra, en það er ekki af trúarlegum ástæðum, það er vegna þess að mér þykja þær skynsamlegar; margt af því sem Jesús frá Nasaret sagði. Hlutverk þjóðkirkjunnar — það er gott og blessað að segja að kirkjan eigi að þjónusta aðra sem standa utan þess trúfélags. En það þýðir ekki að þeir sem standa utan þess trúfélags kæri sig um það. Ég get t.d. sagt: Píratar hafa þá skyldu að taka á móti hv. þingmanni í sinn flokk og hann hefur þann rétt. Hv. þingmaður sem situr hér hefur rétt á að ganga í flokk Pírata í dag. Ó, hvað ég er góður. Myndi ég þá fara að réttlæta sérstakar ívilnanir til handa Pírötum umfram aðra stjórnmálaflokka?

Virðulegi forseti. Hugmyndin er fráleit.