151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis.

469. mál
[22:21]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég kaus að fara í ræðu í lokin frekar en að fara í andsvar við 2. þm. Suðvest., Bryndísi Haraldsdóttur, þar sem mig langar að fjalla aðeins um efasemdir sem sumir þingmenn hafa án þess að búast endilega við að við útkljáum það hér og nú. Ég skil nefnilega alveg það sjónarmið að þingmenn vilji halda í óformlegu umræðuna sem á sér stað á nefndafundum, kannski sér í lagi þá sem á sér stað á milli gesta; eitt sett af gestum fer út og nefndarmenn spjalla á meðan aðrir gestir koma inn. Þegar gestakomum er síðan lokið spjalla þingmenn stundum svolítið sín á milli.

Ég átta mig á þeim takmörkunum að við tölum út frá okkar eigin persónulegu reynslu og upplifun en reynsla mín er þó sú að bestu fundirnir séu þar sem þingmenn þurfa einungis að máta hver við annan mögulega heimskulegar skoðanir sínar, spyrja mögulega heimskulegra spurninga og reyna að finna út úr því hvernig þeir sjá alla þessa hluti. Þau samtöl eru best og gagnlegust eftir á og ekkert endilega inni á nefndarfundinum sjálfum. Mér sjálfum þætti alveg sjálfsagt að í lok nefndarfunda, eða jafnvel hvers dagskrármáls, væri fastur liður þar sem þingmönnum gæfist tækifæri til að spjalla sín á milli, án þess að fundurinn væri opinn ef þeim liði betur með það, í það minnsta sem eitthvert skref, einhver málamiðlun.

Þegar ég talaði fyrir þessum málum upprunalega töldu svolítið margir í samfélaginu þetta lið í því að uppræta spillingu eða opinbera myrkraverk en það er ekki hægt með einhverju svona. Þingmenn geta alltaf tekist á. Þeir geta alltaf hist. Þeir geta alltaf spjallað saman. Við erum ekkert að fara að opinbera samtöl á milli þingmanna. Það er ekki heldur markmiðið með frumvarpinu. Það vildi ég líka að kæmi fram. Markmiðið er ekki að opna á hluti sem fólk vill ekki hafa opna vegna þess að það hefur ástæðu til að tala í trúnaði eða vegna þess að það vill mögulega láta óupplýstar spurningar eða skoðanir flakka til að máta þær við sannfæringu sína. Markmiðið er að auka getu almennings og fjölmiðla til að fjalla um málin. Það er markmiðið en það næst ekki endilega fram með því að heyra allar ómótuðu vangavelturnar sem geta komið fram í samskiptum þingmanna. Hins vegar tel ég að það væri mjög gagnlegt að fá þær fram í samskiptum við gesti.

Þegar kemur hins vegar að því að þingmenn vilja mögulega máta ófullmótaðar skoðanir eða spurningar við gesti verð ég að viðurkenna að ég hef ekki það mikla samúð með þeirri stöðu, hafandi margoft verið í henni sjálfur. Ég óska eftir því að útskýra það aðeins nánar. Í fyrsta lagi liggur það fyrir fyrir fundina hvaða gesti við fáum. Gestirnir hafa yfirleitt sent inn umsögn sem hægt er að kynna sér. Góðu umsagnirnar eru stuttar og skýrar, sumar eru langar og skýrar en aðrar eru langar og óskýrar. Almennt er það reynsla mín að ef við sýnum því metnað getum við kynnt okkur umsagnirnar áður en við mætum á fundinn og jafnvel á fundinum sjálfum þegar meira er að gera.

Sömuleiðis er hitt sem ég hygg að sé menningarlegt atriði og við getum einungis leyst með því að breyta svolítið viðhorfum okkar, þ.e. viðhorfinu til ómótaðra skoðana, ómótaðra fullyrðinga og ómótaðra spurninga og sjónarmiða. Ég á ekki í neinum vandræðum með að koma hingað í pontu og segja berum orðum að ég viti ekki eitthvað eða hafi ekki heyrt um eitthvað. Stundum láta aðrir þingmenn eins og það sé einhver ægilegur höggstaður en það er einfaldlega ekki reynsla mín að svo sé. Það er freistandi fyrir stríðnispúkann í sumum að ætla að gera sér mat úr því. En reynsla mín er að það virki mjög illa vegna þess að fólk vill miklu frekar hafa þingmenn og fulltrúa sem kynna sér málin, læra og móta sér skoðanir á upplýstan hátt heldur en þingmenn sem þykjast vita allt og eru í því að stríða hver öðrum fyrir að hafa ekki lesið þessa bók eða hina skýrsluna. Samkvæmt minni reynslu, og kannski er þetta mjög misjafnt milli þingmanna, er sömuleiðis ekkert rosalega erfitt að draga fram í spurningu einhvern kjarna án þess að byrja endilega á einhverri ræðu um að þingmaðurinn viti ekkert um málið og skilji ekkert í því. Það er hægt að spyrja gáfulega og nærgætnislega og fá einhver gáfuleg svör án þess að hafa endilega kynnt sér málið í þaula.

Það er annað sem við megum heldur ekki gleyma sem er að í umræðum eins og hér erum við líka að leita upplýsinga fyrir almenning. Við erum hér líka til að spyrja spurninga sem almenningur spyr sig og almenningur er ekki í þeirri stöðu að verða þvílíkir sérfræðingar í öllum þessum málum eins og við erum, starfandi við það og á ágætu kaup í þokkabót.

Ég hef því ekki þessar áhyggjur. Ég skil þær samt og ber virðingu fyrir þeim en beini því þá til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að kanna þennan þátt sérstaklega. Ef það er hægt að koma þessu á í einhvers konar skrefum eða með einhverjum málamiðlunum er sá sem hér stendur algjörlega opinn fyrir því, svo lengi sem markmiðið er skýrt, þ.e. að bæta umræðuna og gera almenningi og fjölmiðlum betur kleift að taka þátt í umræðu um málin sem eru hér á Alþingi. Þannig verður umræðan betri og þegar umræðan er betri þá er lýðræðið betra.