152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Þann 13. júní sl. samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu Flokks fólksins um hagsmunafulltrúa eldra fólks. Alþingi ályktaði að fela félags- og barnamálaráðherra að stofna starfshóp hagsmunaaðila auk starfsfólks ráðuneytisins um að semja frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Starfshópurinn átti að meta hvar slíku embætti væri best fyrir komið og hvert umfang þess skyldi vera. Starfshópurinn átti að skila ráðherra drögum að frumvarpi fyrir 1. apríl 2022, eða eftir um hálfan mánuð.

Við fyrirspurn til ráðherra kemur fram að ekki er enn búið að skipa starfshópinn. Ráðherra tekur sér bara leyfi til að virða ekki lög og reglur og segist ætla að fara í það að skipa þennan starfshóp og skila áliti í lok september 2022. Það hlýtur að vera eitthvað skrýtið við það ráðherravald að geta bara tekið sér það bessaleyfi að virða ekki lög og reglur og svara okkur hvernig hann túlkar það og hvernig honum þóknast að vinna í þessu máli. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa ef ráðherra þarf að breyta einhverju og getur ekki staðið við það sem lög og reglur kveða á um og búið er að samþykkja hérna á þingi, að hann hafi þó alla vega samband við Flokk fólksins og tali við okkur um það hvað okkur hentar en ekki hvað honum hentar.