152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:32]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Nú getur vel verið, í ljósi þess að hér hefur verið rifjað upp að hæstv. ráðherra kemur ekki oft hingað, að hún hafi talið sig vera að tala við ráðuneyti sitt. Það getur mögulega verið þannig sem orðræðan er þar af hálfu hæstv. ráðherra. En þetta gengur ekki hér, og að koma svo upp til að svara fyrir sig og telja sér það til happs og hróss að ég hafi verið reið og æst þegar ég fór upp áður. Já, ég var reið og æst vegna þess að ég er eiginlega miður mín og ekkert sérlega fyrir hönd formanns Viðreisnar, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, hún getur varið sig sjálf og þetta er væntanlega ekki það versta sem hún hefur heyrt, þó mögulega héðan úr þingsal, heldur fyrir hönd Alþingis vegna þess að þetta nær náttúrlega ekki nokkurri átt. Það hlýtur að vera snefill af málefnalegri nálgun einhvers staðar í samtalinu. Og að hafa svarað málefnalega í fyrri spurningu — það hefur kannski líka fallið í gleymskunnar dá hjá hæstv. ráðherra að hér eru tvær umferðir og það er þingmaðurinn sem ræður því (Forseti hringir.) hvernig hann fer með sínar spurningar, ekki hæstv. ráðherra, sama hvernig ráðherra, hvað eigum við að segja, lætur, vælir. (Gripið fram í: Þetta er ekki hægt.)