152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

geðheilbrigðismál.

[17:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir að taka þessa mikilvægu umræðu á dagskrá. Hv. þingmaður kom inn á þá hvatningu sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin kom með þegar í upphafi faraldurs, dró fram mjög athyglisverða punkta er varða aukna meðvitund á þessu sviði og þessa áeggjan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um að við myndum ekki bíða boðanna. Við ættum að hafa lært af fyrri reynslu að fara í vöktun og aðgerðir. Það var það sem hæstv. ríkisstjórn hafði í huga. Samhliða spyr hv. þingmaður um sérstakar mótvægisaðgerðir sem hefur verið gripið til á sviði geðheilbrigðismála í kjölfar Covid-19 faraldursins, varðandi börn, ungmenni, eldra fólk, fólk utan vinnumarkaðar, fólk af erlendum uppruna og fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Strax í upphafi heimsfaraldurs var lögð áhersla á aðgerðir til að hlúa að og efla geðheilsu landsmanna samhliða því að vakta stöðuna. Ég held að okkur hafi auðnast að fara þá leið, fara í þær aðgerðir, í nafni gagnsæis í gegnum fjáraukalagafrumvarp. Ég ætla að leyfa mér að vera svo djarfur að taka undir það með hv. þingmanni — mér fannst á ræðu hv. þingmanns að þær aðgerðir hefðu mögulega ekki verið mjög markvissar en þær eru til staðar. Ég held að við séum ekki komin á neinn einasta leiðarenda með að átta okkur á umfanginu eða átta okkur á stöðu þeirra ólíku hópa sem hv. þingmaður dregur hér fram. Þess vegna finnst mér þessi umræða hér alveg sérstaklega mikilvæg og hvernig hv. þingmaður setur þetta upp.

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að draga hér fram þær aðgerðir sem farið var í, m.a. til verndar geðheilbrigði vegna heimsfaraldurs. Þar voru fjármögnuð þverfagleg geðheilsuteymi fyrir börn á landsvísu, geðheilbrigðisþjónusta í framhaldsskólum og háskólum með sérstökum framlögum var efld ásamt aukinni geðheilbrigðisþjónustu við aldrað fólk í heimahúsum til að rjúfa þá einangrun sem við öll könnumst við að verður við þessar aðstæður og við þær takmarkanir sem fylgja því að fást við slíkan faraldur. Þá voru einnig fjármögnuð endurhæfingarúrræði fyrir ungt fólk sem er ekki í námi, vinnu eða sérstakri þjálfun. Þá var sett á fót sérstakt geðráð með fulltrúum notenda og heilbrigðisráðuneytisins sem hafði það hlutverk að hnýta saman aðgerðir og tryggja samræmda upplýsingagjöf til viðkvæmra hópa. Þetta var reynt að vinna í nánu samráði við bæði skólamálaráðherra og félagsmálaráðuneyti vegna þess að þetta skarast, sem og sveitarfélögin. Þá vil ég rifja upp tómstundastyrkinn, 600 milljónir sem voru lagðar fram til að halda börnum og unglingum gangandi í íþrótta- og tómstundastarfi þannig að fjölmargt hefur verið gert á þessum tíma.

Þetta er áfram vaktað. Skipaðir voru tveir stýrihópar sem var ætlað að vakta áhrifin á geðheilsu og lýðheilsu þjóðarinnar. Stýrihóparnir hafa skilað skýrslum sem hafa gefið ágætissýn á áhrifin hér á landi og vísbendingar um skynsamlegar mótvægisaðgerðir. Ég vil leggja áherslu á það að við getum ekki stoppað hér og sagt að faraldurinn kunni að verða búinn eftir einhvern tíma. Eins og við vitum þá hvílir hann á heilbrigðiskerfinu okkar meira kannski en við finnum fyrir svona dags daglega í samfélaginu, þ.e. ef við erum ekki að kljást við veikindi hvert og eitt okkar. En við þurfum að taka þessa vinnu, það sem hefur verið gert, draga það saman og halda áfram að gera betur á þessu sviði.

Hv. þingmaður spyr einnig um bið eftir geðheilbrigðisþjónustu og hvernig hún hafi breyst á tímum heimsfaraldurs. Það verður að segjast eins og er að það er óhuggulegt að horfa á þá biðlista sem hafa teiknast upp. Á móti var reynt að bregðast við með ýmsum úrræðum, t.d. með símaþjónustu og með því að auka aðgengið. Það má líka sjá jákvæðar tölur frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um slík viðbrögð þar sem símtölum fjölgaði verulega þannig að ýmislegt hefur verið gert. (Forseti hringir.) Var það nægilega markvisst? Það er erfitt að svara til um það, líklegast ekki. (Forseti hringir.) Getum við stoppað hér og nú? Nei, þvert á móti, við þurfum að halda þessu áfram. (Forseti hringir.) — Ég hlakka til að hlusta á þær ræður sem á eftir koma.