152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

geðheilbrigðismál.

[17:20]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur kærlega fyrir að hefja máls á þessari umræðu og vil nota tækifærið og óska hv. þingmanni jafnframt til hamingju með afmælið í dag. Ég ætlaði að leyfa mér að tala um það sem ég ræði svo oft í þessum þingsal sem er niðurgreidd sálfræðiþjónusta. Ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra þegar hann var nýtekinn við embætti þann 8. desember síðastliðinn af því ég hafði áhuga á því að ná fram skoðun hans og vonandi gjörðum á kjörtímabilinu hvað þennan málaflokk varðar. Ég spurði hann spurningar og ætla bara spyrja hann aftur í þingsal núna vegna þess að þrátt fyrir að mánuðirnir hafi liðið hefur því miður ekkert svar borist. Ég spurði ráðherrann að því hvert væri nýgengi örorku vegna kvíða og þunglyndis árið 2021 og reyndar árin tvö þar á undan og var vitaskuld með heimsfaraldurinn þar í huga. Mér finnst satt best að segja holur hljómur í því að vera að tala um það í stjórnarsáttmála að það eigi að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla þegar það virðist vera allt að því pólitískur ómöguleiki að framkalla samtal um þennan málaflokk hér. Þannig að ég er hingað komin og vil segja að ég hef mikla trú á hæstv. heilbrigðisráðherra og var mjög ánægð með að hann skyldi vera gerður að heilbrigðisráðherra. En ég myndi vilja fá fram sjónarmið hans, svör og helst skýr svör, um það hvort hann hyggst auka aðgengi fólks að sálfræðimeðferð óháð efnahag. Það er lykilbreytan í þessu. Þess vegna erum við að tala fyrir niðurgreiðslu. Þetta er spurning um aðgengi óháð efnahag en þetta er líka spurning um aðgengi óháð búsetu með því að niðurgreiða þjónustuna. (Forseti hringir.) Ég vil minna hæstv. heilbrigðisráðherra á að það var með lögum nr. 93/2020, (Forseti hringir.) fyrir tveimur árum síðan, sem ráðherra fékk blessun og bón og skipun Alþingis um að fara í þetta.