152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

geðheilbrigðismál.

[17:30]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir að efna til þessarar þörfu umræðu og sömuleiðis vil ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórssyni fyrir þau svör sem hann hefur þegar gefið okkur. Ég ætla alveg að segja það hér að ég var einn af þeim sem fagnaði skipan þess góða manns í embætti heilbrigðisráðherra vegna þess að mér virðist hann vera æðrulaus. Hann tekur við hugmyndum frá öðrum, og öllum góðum hugmyndum ættum við að beina að heilbrigðisráðherrann okkar og það erum við að gera með þessari umræðu. Hún er þörf og góð.

Ég kýs að líta á ljósið í myrkrinu. Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir spurði í upphafserindi sínu hvort geðheilbrigðismálin hefðu verið einhvers konar olnbogabarn, hefðu þurft að sæta einhvers konar fordómum. Að sjálfsögðu er svarið við því já, stórt já. Það þarf ekki að mikla kunnáttu í íslenskri tungu til að sjá fyrirlitninguna í garð þeirra sem hafa glímt við þroskahömlun eða einhvers konar geðvanda. Þeir hafa verið settir sem afgangsstærð í kerfinu okkar. Við getum ekki hengt ábyrgðina á þeim hlutum um hálsinn á nýskipuðum heilbrigðisráðherra. Við getum vonast til að hann beri gæfu til að leysa úr því sem allra fyrst og allra best og ég treysti að svo verði. Stærsti og dýrasti málaflokkur okkar þjóðarbús er heilbrigðiskerfið og langtímastefnan ætti að vera stórátak í lýðheilsu þar sem geðheilbrigðismálin verða tekin sem allra föstustum tökum. Ég vonast til þess að við getum farið að horfa í auknum mæli (Forseti hringir.) á samhengið á milli efnis og anda. Gæti verið að kvíðahnúturinn í maganum (Forseti hringir.) byrji hreinlega í maganum og færist síðan upp í höfuðið? Getur verið að flóran okkar sé í ólagi og það valdi hluta af þessum vandamálum? (Forseti hringir.) Skoðum þetta í víðu samhengi.

(Forseti (DME): Ég minni hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)