152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

geðheilbrigðismál.

[17:34]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Frú forseti. Mig langaði aðeins að klára mál mitt, spurninguna sem mig langaði að varpa fram áðan. Ég vil byrja á að segja að það að stjórnvöld fylgist ekki með því hvort meðferð sem einstaklingar fá sem leita til þriðju línu stofnunar í von um bata beri árangur finnst mér að vera algjör skömm. Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort þessu eigi að breyta og hvort það eigi að fylgja betur eftir fólki sem er í sjálfsvígshættu.

Mig langar líka að fagna því að verið sé að ræða geðheilbrigðismál og þakka fyrir það. Mig langar líka að tala um staðreyndir, ekki sögusagnir, ekki vangaveltur heldur staðreyndir. Staðreyndin er sú að tæplega 60% stúlkna í tíunda bekk og 35% drengja meta andlega heilsu sína sæmilega, slæma eða mjög slæma. Staðreyndin er sú að 40% barna í tíunda bekk hafa hugleitt að skaða sjálf sig einu sinni eða oftar og staðreyndin er sú að 20% hafa skaðað sig einu sinni eða oftar. 20% barna eru ekki ánægð með líf sitt og eru ekki hamingjusöm. Þetta eru bara börn í tíunda bekk og staðreyndin er sú að 20% barna líta aldrei eða sjaldan bjartsýnum augum til framtíðar. Hvað eru þessi 20% barna mörg? Þetta eru um 900 börn, eitthvað svoleiðis, sem skaða sig, eru ekki hamingjusöm, horfa ekki björtum augum til framtíðarinnar. Hvað segir þetta okkur um íslenskt heilbrigðiskerfi? Það er mölbrotið og mætir algjörum afgangi. Að það séu biðlistar hvert sem litið er innan heilbrigðiskerfisins er mér fyrirmunað að skilja, hvernig þetta hefur orðið svona. En það þarf eitthvað að gerast og það þarf að gerast strax. Það er svo mikilvægt að sinna þessum börnum og ungmennum á fullnægjandi hátt vegna þess að samfélagið okkar græðir á því. (Forseti hringir.)

Svo vil ég líka segja að skýrslunni um geðheilbrigðismál (Forseti hringir.) sem verið er að vinna í þarf að breyta mikið til að hún sé fullnægjandi. (Forseti hringir.) Hvað ætli þetta aðgerðaleysi kosti okkur? Það er líka spurning mín.