152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

réttindi sjúklinga.

150. mál
[19:54]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í ljósi þessara orða og í ljósi þess að það hefur verið töluverður þungi í umræðu í þessum sal í dag um virðingarleysi ríkisstjórnar gagnvart þingi ætla ég að hlífa okkur við þeirri umræðu. En ég ítreka það sem ég nefndi í fyrri ræðu í ljósi fyrirspurnar hv. þingmanns. Það kemur fram í umsögn Þroskahjálpar að þau vilji sérstaklega árétta að ekki verði séð á þessu frumvarpi, hvorki á greinum frumvarpsins, greinargerð né athugasemdum við einstakar greinar að það hafi verið litið sérstaklega til ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og að landssamtökin fari þess vegna sérstaklega í það að hvetja velferðarnefnd eindregið til að ganga úr skugga um að heilbrigðisráðuneytið hafi gætt að því að ákvæði frumvarpsins séu í fullu samræmi við réttindi fatlaðs fólks, meira er nú öryggið ekki. Það er verið að biðla til þingsins um að tryggja þetta nú því að af lestri frumvarpsins er augljóst að Þroskahjálp er ekki viss um að svo sé.

Efnislega rímar þessi umsögn mjög vel við það sem kemur fram af hálfu Geðhjálpar og ég nefni það af því að hæstv. heilbrigðisráðherra situr hér að þau nefna sérstakrar greinar samningsins í þessu sambandi um að almennar skuldbindingar samkvæmt samningnum séu þær að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu til að tryggja þau réttindi sem eru viðurkennd í samningnum. Síðan eru þarna atriði sem með beinum hætti tengjast inntaki þessa frumvarps, t.d. sjónarmið á borð við það að fötlun (Forseti hringir.) skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu.