Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[13:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni andsvarið. Varðandi það hvort þessi háttur sé meira íþyngjandi en þinglýsingarnar þá álít ég það nú vera mikið matsatriði og að mörgu leyti sé verið að einfalda einstaklingunum vinnuna. Þarna er verið að koma upp rafrænu kerfi til að taka á móti upplýsingum og þannig munu t.d. stærri leigufélög og sveitarfélög geta skilað upplýsingum í gegnum gagnagáttir þar sem þau eru nú þegar með rafræna leigusamninga. Einstaklingarnir geta svo aftur gert rafræna leigusamninga sem fara þá beint inn í gáttina. Ef óskað er þinglýsingar samhliða þarf einfaldlega að haka í tiltekinn reit og greiða uppsett verð fyrir þinglýsingu. Hins vegar verður skráning í gagnagrunninn aðilum að kostnaðarlausu þannig að það er auðvitað ekki eins íþyngjandi og er í dag.

Varðandi tölfræðivinnslu úr þinglýsingum er þinglýsingarskrá yfir leigusamninga ekki rafræn. Samþykkt þessa frumvarps fylgir umfangsmikil breyting á upplýsingavinnslunni allri og þar með tækifæri til að miðla upplýsingum, hvort sem er til stjórnvalda vegna stefnumótunar eða til einstaklinga sem stuðningur við samningagerð aðila.