154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[21:00]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir að sér finnist hér verið að búa til stétt fólks. Ég held að við þurfum bara að ganga lengra og segja: Hún hefur nú þegar verið búin til. Það er skömm að því hvernig við komum fram sem samfélag, þetta ríka samfélag sem við erum, hvernig við komum fram við fólkið sem flytur hingað í leit að tækifærum og heldur í leiðinni uppi samfélaginu okkar. Fimm þeirra hafa dáið í bruna frá vorinu 2020. Það er óásættanlegur fórnarkostnaður. Ef annað eins væri að gerast, ef við sæjum kerfislægt fimm einstaklinga deyja vegna þess að samfélagið væri búið að úthluta þeim ákveðinni stétt og þeirri stétt fylgdi að búa í hættulegu atvinnuhúsnæði þá værum við löngu búin að grípa í taumana, held ég, ef ekki væri um að ræða útlendinga. Það skiptir höfuðmáli að viðurkenna ekki búsetu í atvinnuhúsnæði sem einhvern veruleika sem er kominn til að vera. Þessi aðsetursskráning sem er verið að innleiða með þessu frumvarpi þarf að vera tímabundið úrræði til að tryggja öryggi þeirra sem samfélagið hefur troðið í þetta húsnæði þangað til við sem samfélag erum búin að koma upp betra kerfi þannig að þau geti búið í íbúðarhúsnæði sem er þeim bjóðandi. Það er bara ekki staðan í dag. (Forseti hringir.) Veruleikinn er annar. Þessi stétt innflytjenda sem býr við óviðunandi aðstæður þarf í það minnsta að vera skrásett svo að fólk viti að þau séu ekki í dauðagildrum dag hvern.