133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:27]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég get ekki annað en komið hingað til að gera athugasemdir við það hvernig þessari umræðu vindur fram. Ég veit að hæstv. forseti getur ekki með valdi knúið þingmenn sem hér eru í forsvari fyrir ríkisstjórnina til svara. Það er hins vegar ljóst að á síðustu vikum og dögum hefur kastljósið beinst sérstaklega að tilteknum þætti þeirra mála sem við ræðum, þ.e. samkeppnisþættinum. Ég átti von á því að þær ávirðingar sem hafa verið bornar fram, m.a. af fyrrverandi forsætisráðherra, á hendur þeim sem hafa verkstjórnina í þessu máli yrði svarað í framsögu hv. formanns menntamálanefndar. En það var svo af honum dregið að um það var ekkert fjallað í ótrúlega snautlegri framsögu hans.

Af þeim sökum notfærði ég mér rétt minn til að koma upp undir liðnum andsvör. Ég spurði hann út í þessi atriði. Gott og vel. Ég skil að hv. þingmaður hafi ekki mikið tóm til að svara svo flóknum þætti sem hann átti auðvitað að sjá sóma sinn í að reifa í framsögu sinni, ef eitthvert vit hefði verið í henni. Þess vegna kom ég fram með eina lykilspurningu. Hún er einföld, þ.e. þessi: Af því að stjórnarliðið hefur vísað til fordæmisins af búvörulögunum, þar sem er pósitíft ákvæði sem undanþiggur þær greinar sem þau lög fjalla um frá samkeppnislögum, hvers vegna er það ekki svo í þessu frumvarpi? Ég spurði þessarar spurningar líka í nefndinni og fékk ekki svör. Nú spyr ég formann nefndarinnar og hann kemur og talar út og suður. Þetta er bein og málefnaleg spurning og henni er ekki svarað. (SKK: Jú, jú.)

Ég vek sérstaka eftirtekt á þessu. Það hjálpar ekki þessari umræðu þegar sá sem hefur ábyrgð á henni af hálfu stjórnarliðsins víkst undan því að svara spurningum um lykilatriði.