135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[15:16]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Hér er um afar vel unnið frumvarp að ræða og tekið er á mikilvægum málum í löggjöf um útlendinga frá 96/2002. Bæði er verið að færa löggjöfina nær þeirri framkvæmd sem orðið hefur frá setningu laganna en einnig er að finna í frumvarpinu ákvæði sem eru til þess fallin að treysta íslenskt samfélag, stefnumótun á sviði menntamála og starfsemi fyrirtækja í landinu.

Mjög góður bragur er á því að setja ákvæði sem nú eru í reglugerð í löggjöfina. Ég vil sérstaklega taka það fram út af orðum hv. þm. Atla Gíslasonar, að í þessu frumvarpi er verið að stíga skref í þá átt.

Fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að nákvæmari reglur um komu og dvöl útlendinga í landinu eru settar í frumvarpinu með það að markmiði að það verði síðan í löggjöfinni og þar gefst þingmönnum tækifæri til að skoða hvernig þessum hlutum er háttað. Í mínum huga er verulegur bragur að þessari breytingu hjá hæstv. dómsmálaráðherra og ástæða til að taka það sérstaklega fram.

Þetta er umfangsmikið mál og flókið sem tekið verður til ítarlegrar meðferðar í allsherjarnefnd og þar mun nefndin væntanlega fá til sín þá sérfræðinga sem hún telur nauðsynlega til að skýra þetta mál og taka sér tíma til þess að skilja málið til hlítar. Ég geri í rauninni ráð fyrir því líka, þótt það sé ekki tilgreint sérstaklega í almennum athugasemdum með frumvarpinu, að í dómsmálaráðuneytinu þurfi að nýta sérfræðinga til aðstoðar þegar svo ber undir. Auðvitað liggur fyrir að allsherjarnefnd kallar til þá sérfræðinga sem hún þarf á að halda til þess að auðvelda vinnslu málsins.

Nokkur atriði langaði mig að nefna sérstaklega sem ánægjulegt er að sjá í frumvarpinu. Ég vil í fyrsta lagi nefna að þar er gert ráð fyrir flokkun dvalarleyfa og í því sambandi er sjálfsagt að taka fram að hæstv. félagsmálaráðherra mun mæla fyrir frumvarpi um breytingu á atvinnuréttindum útlendinga. Það er alveg gríðarlegur samhljómur í þessum tveimur frumvörpum, enda verður svo að vera þegar um slíka löggjöf er að ræða sem við fjöllum um.

Ég velti þó svolítið fyrir mér hvað við fáum raunverulega út úr flokkun dvalarleyfa. Mér sýnist að ástæðan fyrir því að flokkunin skuli vera sett fram með þessum hætti sé að þá verði auðveldara að átta sig á þeim útlendingum sem starfa hér að ýmsum verkefnum. Slíkar upplýsingar eru afar gagnlegar við kortlagningu á samsetningu þjóðfélagsgerðarinnar. Ég mun sérstaklega beina sjónum mínum að þessu atriði í vinnu nefndarinnar. Að mínu mati er mikilvægt við hagtölugerð að við höfum sem nákvæmastar upplýsingar um þá útlendinga sem hér eru og þau störf sem þeir vinna.

Við vitum að umræðan undanfarin ár hefur mikið beinst að þeim verkamönnum sem fengist hafa hingað til lands til að starfa að verkefnum sem við höfum áður sinnt. Við vitum líka að við höfum útlendinga hér í alls kyns störfum og ég held að það sé afar mikilvægt við hagtölugerð og greiningu samfélagsins að við getum nýtt þessar upplýsingar til góðra verka. Ég vona að það sé réttur skilningur hjá mér en við munum líklega ræða það, t.d. í allsherjarnefndinni.

Ég fagna sérstaklega ákvæðinu sem er að finna í 12. gr. frumvarpsins um sérfræðinga. Við höfum fundið fyrir því að fulltrúar atvinnulífsins hafa haft mikinn áhuga á því að reglurnar verði rýmkaðar. Það skiptir miklu máli að íslensk fyrirtæki hafi fólk og geti haft möguleika á að sækja sér fólk út fyrir landsteinana, fá hæfustu sérfræðingana sem völ er á til starfa. Eitthvað hefur borið á því að mönnum hefur þótt afgreiðsla slíkra leyfa taka of langan tíma. Þess vegna vil ég nefna þetta mikilvæga ákvæði í frumvarpinu varðandi málsmeðferð hjá Útlendingastofnun en lögð er til breyting á 23. gr. laganna á þann veg að þau fyrirtæki sem þurfa að fá til sín sérfræðinga án frekari tafa fá hraðari afgreiðslu.

Það á einnig við um námsmenn og er að mínu viti í samræmi við stefnumörkun menntamálaráðherra um eflingu kennslu og rannsókna við Háskóla Íslands. Markmið samningsins er m.a. að styrkja stöðu háskólans í alþjóðlegu umhverfi. Það þarf ekki að taka fram hversu mikilvægt það er að fá til okkar t.d. sterka doktorsnema og í frumvarpinu er verið að rýmka möguleika þeirra til að fá hraðari afgreiðslu.

Ljóst að það horfir til vandræða ef menn geta ekki sest á skólabekk eða hafið sínar rannsóknir að hausti. Eins má nefna það mikilvæga atriði að þegar fólk er komið á doktorsstig eru gjarnan fjölskyldur með í för. Í frumvarpinu er sérstaklega tekið á því að fjölskyldur doktorsnema hafi tök á því að fylgja viðkomandi hingað til lands.

Allt þetta held ég að muni bæta samkeppnisstöðu okkar hvað þetta varðar vegna þess að um leið og við segjum að við viljum vera í fremstu röð í menntamálum þá þurfum við auðvitað líka að búa svo um eins og hér er gert, að geta laðað til okkar þetta fólk og það hafi möguleika á að koma hingað.

Mér þykir líka áhugavert ákvæðið sem snertir hraðafgreiðslu hvað varðar þau fyrirtæki sem standa sig vel og fara að reglum og sýna gott fordæmi. Ég skil það þannig að eftir því sé tekið hjá Útlendingastofnun og hún muni þá veita þeim brautargengi í þessum hraðafgreiðslum. Ég held að það sé mjög skynsamlegt og til þess fallið að draga úr deilum sem orðið hafa um afgreiðslu Útlendingastofnunar eða tortryggni sem verið hefur gagnvart einstökum fyrirtækjum um að þau standi ekki nógu vel að málum. Ég held að það sé mjög mikilvægt og í raun og veru eins konar hvatningarákvæði sem mér sýnist að við mættum nota víðar í lögum. Í stað þess að skipa fyrir, hvetjum við frekar fólk ef það stendur sig vel og það fær þá meiri og betri afgreiðslu.

Ég hef aðeins tæpt á örfáum atriðum í þessu frumvarpi. Fyrir liggur að allsherjarnefnd fær nú frumvarpið til meðferðar og það verður fróðlegt að fá tækifæri til að fara ofan í þetta mikilvæga mál. Ég vil bara ítreka að í því sambandi mun nefndin auðvitað nýta sér þá sérfræðinga sem þörf er á og ég veit að málið fær góða og vandaða afgreiðslu þar.