136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[14:07]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað skylt og rétt að fara með það sem sannara reynist í hverju máli og ég þakka ráðherranum fyrir að leiðrétta mig varðandi útvarpsréttarnefnd, hafi ég farið þar aðeins á skjön við það sem er reynd í dag.

Hvað varðar fjölmiðlalögin frá 2004 þá greiddi ég atkvæði gegn þeim og sé ekki eftir því, ekki vegna þess að ég væri á móti því að setja löggjöf eða teldi ekki þörf á að setja einhverja löggjöf um takmarkanir á eignarhaldi heldur vegna þess að þar var svo langt gengið. Það var gengið svo yfirgengilega langt að þetta var eiginlega bara einelti. Fyrrverandi forsætisráðherra fór offari í málinu og fór miklu lengra en efni stóðu til og hægt var að rökstyðja á þeim tíma.

Það var að mínu viti meginástæðan fyrir því að í raun og veru varð þjóðin algerlega andvíg þessu máli sem var svo staðfest í ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja málið ekki í dóm kjósenda eins og forsetinn bauð upp á með sínum aðgerðum. Það var auðvitað val ríkisstjórnarinnar hvort hún legði gjörðir sínar í dóm kjósenda eða tæki gjörðir sínar til baka. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar varð að taka málið til baka.