136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

framhaldsfræðsla.

216. mál
[15:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. ráðherra fór yfir er verið að brúa ákveðið bil í löggjöf þar sem lög frá 1992 um framhaldsfræðslu voru í raun felld úr gildi 1996 og þá var bara rætt um fullorðinsfræðslu í lagaákvæði í gömlum lögum um framhaldsskóla frá 1996.

Kallað hefur verið eftir lagasetningu um þetta efni bæði frá fullorðinsfræðslusamfélaginu og í þessum sal og ég tel fulla ástæðu til að fagna því að hér liggi nú fyrir frumvarp um það. Lengi vel var fullorðinsfræðsla hornkerling í hinu formlega íslenska menntakerfi, bæði af þeim ástæðum sem hér eru taldar, að lagaleg staða hennar hefur verið óljós og örlítið hlutfall opinberra framlaga til menntamála hefur runnið til fullorðinsfræðslu. Það hlutfall endurspeglar þó ekki endilega það starf sem hefur verið unnið í fullorðinsfræðslu þar sem bæði hefur verið rekið talsvert formlegt starf, og þá á ég við hefðbundna kennslu fyrir fullorðna á ýmsum sviðum innan ólíkra stofnana. Nægir þar auðvitað að nefna símenntunarmiðstöðvarnar og alls konar námskeiðahald, Námsflokkana á meðan þeir voru í fullu starfi — og þeir standa reyndar enn fyrir námskeiðum á ýmsum sviðum — og svo mætti lengi telja. Ekki má heldur gleyma hinni óformlegu fullorðinsfræðslu sem hefur verið við lýði hér á landi allt frá tímum upplýsingarinnar, þó að hún sé ekki til umræðu hér, en hefur staðið með miklum blóma hvort sem horft er á almenningsbókasöfn, fræðslufélög, fræðslutímarit eða fjölmiðla — ég nefni sérstaklega Ríkisútvarpið og þá fræðslu sem það hefur sinnt, af því að við ræddum það og hlutverk þess hér áðan — og margt fleira mætti nefna. Þessi löggjöf snýst hins vegar um hinn formlega hluta fullorðinsfræðslunnar og ég tel að slík löggjöf muni styrkja hana.

Fullorðinsfræðsla hér á landi hefur að mörgu leyti þróast sjálfstætt í grasrótarstarfi á undanförnum árum. Vinnuveitendur og verkalýðshreyfing hafa tekið höndum saman um fullorðinsfræðslu og rekið öflugt starf og afrakstur þess er m.a. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, sem hér var nefnd, og hefur orðið nokkurs konar miðstöð margra þeirra sem sinna fullorðinsfræðslu. Ég vil sérstaklega nefna símenntunarmiðstöðvarnar, sem eru flestar sjálfseignarstofnanir, stofnaðar af sveitarfélögum, fyrirtækjum á viðkomandi stöðum, háskólum og framhaldsskólum. Ég þreytist seint á að ítreka mikilvægi þessara miðstöðva fyrir sín svæði og nauðsyn þess að þær starfi áfram sjálfstætt því að þær hafa jú fingurinn á púlsinum þegar kemur að því að meta þarfir og áhugasvið fólks og fyrirtækja á svæðinu og um þær er fjallað í greinargerð með frumvarpinu. Mjög mikilvægt er að rekstrargrundvöllur þeirra verði áfram tryggður enda eru þær oft eini aðgengilegi fræðsluaðilinn í hinum dreifðu byggðum og hafa einnig gegnt mikilvægu hlutverki við fjarnám á háskóla- og framhaldsskólastigi. Því þarf að styrkja stoðir þeirra þannig að nám í heimabyggð fyrir fullorðna verði raunverulegur og aðgengilegur kostur í fullorðinsfræðslu ásamt hvers konar endur- og símenntun og tryggja um leið framboð á náms- og starfsráðgjöf hjá sömu aðilum þannig að hægt verði að bjóða upp á slíka þjónustu, t.d. í samstarfi við atvinnurekendur.

Að þessu sögðu ítreka ég auðvitað líka mikilvægi þeirrar þjónustu sem er í boði hér á höfuðborgarsvæðinu og ætla ekki að fara nánar út í hana enda nefndi ég áðan sem dæmi um hana Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Mími, Námsflokkana og svo mætti lengi telja.

Ég hef aðeins rýnt í rökstuðninginn með frumvarpinu, sem greint er frá í greinargerð með því. Þar eru talin til ýmis rök fyrir því að efla fullorðinsfræðslu og sérstaklega rætt um menntunarstigið, sem hæstv. ráðherra nefndi í framsögu sinni, sem er tiltölulega lágt í alþjóðlegum samanburði þegar horft er til hlutfalls þeirra sem lokið hafa formlegu námi umfram skyldunám, en árið 2005 hafði 31% Íslendinga á aldrinum 25–64 ára ekki lokið formlegu námi umfram skyldunám. Athyglisvert er að þeim sem lokið hafa námi á framhaldsskólastigi hefur fjölgað hægar hér á landi en erlendis á sama tíma og hlutfall þeirra sem lokið hafa háskólanámi hérlendis er yfir meðaltali innan OECD-ríkja, að því er fram kemur í greinargerð. Af þessu má draga þá ályktun að hér á landi sé mikill innbyrðis munur á menntunarstigi þegar rætt er um formlega menntun. Ég held að þetta sé áhugaverð umræða fyrir þá sem hafa áhuga á menntamálum að hægt sé að minnka bilið á milli þeirra sem lokið hafa háskólaprófi og hinna sem í raun hafa einungis lokið skyldunámi.

Í greinargerð er einnig sagt að bætt menntun ófaglærðra geti almennt haft jákvæð áhrif á efnahagslífið og aukið lífsgæði þeirra sem njóta menntunarinnar. Þetta er vissulega rétt og mig langar að kafa aðeins dýpra í þessar röksemdir. Mig langar að rifja upp rannsóknir Jóns Torfa Jónassonar sem hefur rannsakað fullorðinsfræðslu mikið og nefnt fern rök, sem mér finnst mikilvægt að halda til haga í umræðunni. Það eru mannauðsrökin sem hægt er að tengja við lífsgæðin sem eru nefnd í greinargerðinni, þ.e. að fullorðinsfræðsla styrki stöðu fólks á vinnumarkaði og geri það færanlegra. Fólki er gert kleift að skipta um vinnu og vinna sig upp og fræðslan eykur líka nýsköpun í starfi og hefur þar af leiðandi jákvæð áhrif á efnahagslífið.

Í öðru lagi má nefna svokölluð lýðræðisrök sem snúast um mikilvægi þess að ávallt sé unnið að því að endurnýja undirstöðuþekkingu almennings eins og t.d. læsi — og við höfum nú rætt um læsi í þessum sölum og mikilvægi þess að læsi fullorðinna sé tryggt. Þjóðfélagið sem við búum í er síbreytilegt og reiðir sig á þekkingu og færni fólks til að geta tekið þátt. Þetta tel ég vera mjög mikilvæg rök fyrir öflugri fullorðinsfræðslu. Við sjáum t.d. hvernig umræða í samfélaginu fer að stórum hluta fram á netinu, sem sýnir okkur mikilvægi þess að almenningur allur sé tölvulæs þótt ekki sé nema til að vera virkur þátttakandi í lýðræðissamfélagi.

Í þriðja lagi eru það svokölluð jafnræðisrök sem eiga mjög vel við í ljósi þeirrar tölfræði sem rædd er í greinargerðinni þar sem rætt er um þennan mikla innbyrðis mun á menntunarstigi á Íslandi. Með aukinni áherslu á fullorðinsfræðslu minnkum við vonandi þennan mun og um leið hugsanlega stéttaskiptingu sem getur hlotist af menntunarmun í samfélagi.

Í fjórða lagi eru það svokölluð almenn tæknirök sem snúast um að tryggja almennan tæknilegan grunn allra til að tryggja að fólk geti verið sem hreyfanlegast á vinnumarkaði.

Ég tel þessa röksemdafærslu í fjórum liðum eiga mjög vel heima í umræðunni og hef áður bent á að þetta sýni nauðsyn þess að hið opinbera axli ákveðna ábyrgð á fullorðinsfræðslu ásamt aðilum vinnumarkaðarins og öðrum sem þar kunna að taka þátt. Fullorðinsfræðsla er að mínu mati samfélagslegt verkefni, hluti af okkar samábyrga velferðarsamfélagi en ekki aðeins hagsmunamál atvinnurekenda og launþega, þó að þeir hafi unnið gríðarlega mikilvægt frumkvöðlastarf í að þróa fullorðinsfræðslu hér á landi.

Ég legg til í þessu samhengi að menntamálanefnd skoði sérstaklega hvort ástæða sé til að breikka skírskotun frumvarpsins en í greinargerð á bls. 10 segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi þessu er lagður grunnur að nýrri skipan framhaldsfræðslu sem ætlað er að þjóna atvinnulífi og launþegum á vinnumarkaði með stutta skólagöngu að baki, sem hefur jafnframt skírskotun til framhaldsskólastigsins og, eftir atvikum, háskólastigsins. Þessi nýja skipan miðar að því að til verði heildstætt kerfi sem ætlað er að mæta þörfum atvinnulífs og launþega óháð því hvort þeir starfa á almennum eða opinberum vinnumarkaði.“

Þetta er mjög gott svo langt sem það nær en ég velti því fyrir mér hvort lög um fullorðinsfræðslu eigi ekki að ná til allra því að þó að fólk á vinnumarkaði sé vafalaust langstærstur hluti þeirra sem sækja sér fræðslu utan hins formlega skólakerfis er fólk sem er ekki á vinnumarkaði en hefur samt litla grunnmenntun. Ég gæti nefnt mjög fatlað fólk eða aðra öryrkja, sem vegna stöðu sinnar hafa ekki getað sinnt vinnu, eða aðra sem eru ekki á vinnumarkaði, kannski vegna stuttrar menntunar. Ég velti því fyrir mér hvort einhver sérstök rök séu fyrir því að undanskilja þessa hópa í frumvarpinu og hvort ekki sé ástæða til að taka þetta einmitt allt heildstætt saman því menntamálaráðuneytið hefur sinnt þessum málum og verið með samstarfssamning við Fjölmennt um fullorðinsfræðslu fatlaðra, og ég velti því fyrir mér hvort ekki væri eðlilegt að sá þáttur fræðslunnar væri ræddur sérstaklega í frumvarpinu, þ.e. fullorðinsfræðsla fyrir fólk sem ekki er á vinnumarkaði. Ég legg til að menntamálanefnd skoði þetta sérstaklega nema einhver sérstök rök mæli gegn því.

Af öðrum einstökum atriðum í frumvarpinu langar mig að nefna tvennt nú í 1. umr. og það er þetta svokallaða raunfærnimat sem fagfólk í fullorðinsfræðslu hefur verið óþreytandi að berjast fyrir undanfarin ár. Ég fagna því að sjá það komið inn í lög enda getur slíkt mat á óformlegu námi verið gríðarlega mikilvægt við að hjálpa fólki annaðhvort til að taka upp þráðinn í námi eða fá hjálp við að komast af stað og því tengt er náms- og starfsráðgjöf. Þetta er sett saman í frumvarpinu sem mér finnst góð tenging af því að þetta snýst bæði um að fólk fái það metið sem það hefur verið að gera, t.d. úti á vinnumarkaði, og fái síðan ákveðna hjálp við að taka upp þennan þráð eða komast af stað.

Hins vegar er það fyrirkomulag hins nýja Fræðslusjóðs sem er seinna atriðið sem mig langar til að ræða aðeins, en eins og hæstv. ráðherra fór yfir áðan er gert ráð fyrir að stjórn sjóðsins úthluti fjármunum til fræðsluaðila og því verði skipt á tiltekinn hátt. Stjórn sjóðsins á að vera skipuð átta aðilum — þetta er hluti fjármagnsins, svo er annar hluti fjármagns sem hæstv. ráðherra fór áðan yfir í framsögu sinni — formanni, væntanlega skipuðum af menntamálaráðherra, tveimur fulltrúum Samtaka atvinnulífsins, tveimur fulltrúum ASÍ, einum fulltrúa BSRB, einum fulltrúa frá félags- og tryggingamálaráðuneyti og einum fulltrúa sameiginlega tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneyti.

Ég velti fyrir mér tvennu í tengslum við þetta. Annars vegar hvort ekki sé ástæða til að Samband íslenskra sveitarfélaga eigi þarna heilan fulltrúa, því málið er þeim skylt út af þeirri tengingu sem við þurfum að ná við allt landið og ég held að rétta leiðin til þess sé að fara í gegnum sveitarfélögin sem þekkja vel þarfirnar á hverjum stað. Hins vegar velti ég fyrir mér hvort ekki væri rétt að skapa tengingu inn í — getum við sagt — afganginn af skólasamfélaginu, t.d. inn í háskólasamfélagið þar sem gríðarleg þekking er á menntavísindum, fræðslu og öllum uppeldisfræðum. Þar væri hægt að fá ákveðna akademíska sýn inn í stjórn sjóðsins sem ég held að væri áhugavert að fá inn í svona fyrirkomulag þar sem fjármunum er úthlutað til fullorðinsfræðslu. Við erum með vinnuveitendur, launþega og ráðuneytin en mér finnst vanta dálítið þarna inn fulltrúa sem kemur með sýn skólasamfélagsins.

Ég legg til að menntamálanefnd velti þessum möguleika fyrir sér og taki til skoðunar. Ég efast ekki um að mjög áhugaverð vinna er fram undan við frumvarpið. Ég fagna því að það liggi fyrir og held að það sé fullorðinsfræðslu til mikilla hagsbóta að fá ramma utan um starfsemi sína, sem veitir samt svigrúm til að þróa málin eins og þau hafa þróast úr grasrótinni. En ég velti þessu tvennu sérstaklega fyrir mér og vonast til að vinna nefndarinnar verði gefandi um þessi mál.