140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

ábyrgð og eftirlit hins opinbera gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu í ljósi sílikonpúða-málsins.

[14:26]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég held að við ættum aðeins að gæta okkar í því að fullyrða í ræðustól Alþingis að Læknafélag Íslands gæti ekki hagsmuna sjúklinga sinna eða bara sumra. Það eru stór orð og erfitt að standa við þau.

Hér er ábyrgð og eftirliti augljóslega ábótavant. Eftirlit með læknum er í höndum landlæknisembættisins og ljóst er í þessu máli sem og mörgum öðrum að það þarf að bæta. Við sjálfstæðismenn lögðum áherslu á það þegar sameining Lýðheilsustöðvar og landlæknisembættisins var á döfinni að búið yrði til sérstakt sameiginlegt embætti eftirlits. Á það var ekki hlustað. Ég held að miðað við margt sem kemur nú í ljós, ekki bara í þessu máli heldur í ýmsum öðrum, hefði betur verið hlustað á þær tillögur.

Hins vegar er það Lyfjastofnun sem hefur eftirlit með innflutningi á læknisfræðilegum íhlutum. Það er Lyfjastofnunar að fylgjast með innflutningi slíkra íhluta og það er Lyfjastofnunar að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar verði á milli sjúklinga eða kaupenda þjónustunnar og lækna hvað þetta varðar. En fyrst og síðast er vottun þeirra íhluta sem við ræðum hér algerlega út úr kortinu. Hver ber ábyrgð á henni? Upplýsingar um púðana bárust árið 2010 og við ræðum þessi mál nú í upphafi árs 2012 og þá er alveg ljóst að lagaumhverfi hvað varðar eftirlit bæði með læknum og með innflutningi íhluta í læknisfræðilegum tilgangi er mjög ábótavant og á því verður að taka vegna þess að hagsmunir þeirra sem njóta þjónustu lækna verða ætíð að vera í fyrirrúmi.