140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[15:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvar hv. þm. Magnúsar Orra Schrams. Honum varð, eins og hv. 1. flutningsmanni frumvarpsins, tíðrætt um ástandið í Bretlandi og þá stöðu sem þar er sem og tíðni hundaæðis. Ég minntist reyndar ekki einu orði á hundaæði í ræðu minni en varaði hins vegar sterklega við því að menn tækju Bretland sem fyrirmynd þess hvernig við höguðum okkar sjúkdómavörnum. Ég benti frekar á Nýja-Sjáland og Ástralíu sem betri og skynsamlegri fyrirmyndir í því efni ef menn vilja leita þeirra meðal erlendra aðila.

Hundaæði er sannarlega vágestur sem gengur víða um heim en er ekki á Íslandi. Við sleppum þar af leiðandi við að bólusetja okkar dýr við því sem við þyrftum ellegar að gera ef hér yrði leyfður innflutningur. Það er umtalsverður kostnaður sem því fylgir.

En þetta er ekki eini sjúkdómurinn, frú forseti, sem hingað gæti borist. Mig langar að nefna af því að ég minntist á það áðan að þetta eru ekki einungis sjúkdómar sem geta verið í viðkomandi gæludýrum eða gæludýrahópum, þetta eru ekki einungis sjúkdómar sem fara frá einum hundi til annars eða frá ketti til kattar, hugsanlega frá hundi til kattar, heldur geta þessir sjúkdómar farið í aðrar skepnur. Og af því að hér var rætt talsvert fyrir ári síðan um verulegt tjón, upp á nokkra milljarða, sem hestamennskan varð fyrir í landinu og tjón varð hér á hestum, þá kom í ljós meðal annars að sýkillinn sem olli hestapestinni fannst bæði í köttum og hundum. Það hefur líka verið greind hestainflúensa (Forseti hringir.) í hundi, þannig að „súnósur“ sem geta farið á milli eru líka fyrir hendi.