140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[16:01]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt um þetta mál, þ.e. að reynsla Norðurlandanna og Bretlands, sem liggja okkur næst og eru skyldastar okkur að menningaruppbyggingu og umhverfi, af því að nota gæludýravegabréf í stað einangrunar hefur verið mjög góð og tímabært að lög og reglur á Íslandi taki mið af þeim framförum sem hafa orðið við gerð bóluefna, sníkjudýralyfja eða gæðamælinga á blóðsýnum.

Í raun og veru má segja, virðulegi forseti, að engar röksemdir séu fyrir eins mánaðar einangrun. Þeir sjúkdómar sem menn hafa áhyggjur af koma ekki fram á þeim tíma. Þegar menn styttu þennan tíma úr þremur mánuðum eða sex mánuðum niður í einn mánuð notuðu menn röksemdir sem ganga ekki lengur. Við búum í breyttum heimi og þess vegna tel ég að við eigum að koma til móts við þá eigendur gæludýra sem búa ytra og vilja koma til landsins með sín gæludýr. Ef þau fá nauðsynlega lyfjagjöf ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að viðkomandi geti flutt hingað heim með gæludýrið.