140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[16:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að alls ekki sé um ofmat mitt á hættu að ræða. Ég er bara að lýsa því að hættan er til staðar og reyni að koma þeirri hugsun inn hjá hv. þingmönnum, sérstaklega þeim sem lögðu fram þetta frumvarp. Við skulum hins vegar ekki ofmeta eftirlitskerfin. Við ræddum hér í dag að eftirlit landlæknis með brjóstapúðum hefði mistekist. Við höfum rætt um eftirlitsleysi Matvælastofnunar með kadmíum, iðnaðarsalti, og sérstök viðbrögð gagnvart díoxíni — viðbrögð Umhverfisstofnunar og fleiri eftirlitsaðila þar sem við setjum allt of mikið traust á að reglur og eftirlit tryggi að engin hætta sé á ferðum.

Við verðum alltaf að átta okkur á því hvar áhættan er og hvort við séum að opna á of mikla áhættu. Ég held að ekki sé um að ræða ofmat á áhættu hjá mér, en ég hef hins vegar, að gefnu tilefni, hæfilegt álit á eftirliti.