140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

stjórn fiskveiða.

202. mál
[17:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir góða yfirferð yfir þetta frumvarp sem hann leggur fram með tveimur öðrum þingmönnum Hreyfingarinnar. Ég þakka fyrir það. Ég ætlaði að spyrja að því sama og var rætt áðan þannig að ég sleppi því að tala um Egilsstaði, Mosfellsbæ og Skaftárhrepp, en ég ætla að spyrja hann um þessi 40 þúsund tonn.

Hann segir að það sé af nógu að taka í strandveiðum. Er nokkurn tímann af nógu að taka í kvóta? Munu ekki verða byggðir svo sem 10 þús. smábátar sem fara þá á strandveiðar? Ef þetta verður samþykkt munu menn fara á fullt í að smíða báta sem færu á þessar veiðar af því að þarna er kvótinn gefinn. Það hefur sýnt sig að sá afli sem frá þessum strandveiðum kemur er ekki sérstaklega heppilegur, menn ísa ekki nægilega vel, það er ekki hægt af því að þetta eru svo litlar einingar, þ.e. kælingin er ekki í lagi, og svo hefur meðhöndlun aflans heldur ekki verið nægilega góð af því að þetta eru svo smáar einingar.

Mig langar til að spyrja hann um núverandi útgerðir. Hvað gerist þegar búið er að samþykkja þetta frumvarp og það tekur gildi? Tvær útgerðir eru með starfsemi. Önnur hefur tekið lán til að kaupa kvóta, það lán hverfur og útgerðin getur staðið sæmileg eftir. Hin útgerðin var með eigið fé og lagði fram eigið fé að sömu upphæð, lagði fram hlutafé og keypti nákvæmlega sama magn af kvóta. Það eigið fé hverfur vegna þess að ekki er gert ráð fyrir að það fari neitt inn í þennan sjóð. Þarna er alvarleg mismunun á eignarhaldi manna eftir því hvernig þeir hafa staðið að þessu og ég held að það fái varla staðist. Menn verða sennilega að taka inn fjármögnun eigin fjár líka ef þeir ætla að eiga einhverja möguleika á að þetta verði samþykkt. Þá er spurningin: Hvað gerist ef það (Forseti hringir.) verður leyft?