140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

stjórn fiskveiða.

202. mál
[17:51]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt það sem stjórnvöld hafa stefnt að undanfarna áratugi, að gera landsbyggðina byggilegri en hún er með aukinni atvinnu. Það þýðir mjög aukna atvinnu úti um allt land. Það þýðir aukið fé til sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafa kvartað áratugum saman yfir því að hafa ekki nógu góða tekjustofna og fjöldi sveitarfélaga um allt land er nánast ógjaldfær, þannig að þetta mun líka leysa þann vanda.

Þau sveitarfélög eru sennilega tiltölulega fá þar sem mjög fáir íbúar eru eftir og hlutfallslega mikið fé kæmi þá inn fyrir hvern íbúa í sjóði sveitarfélagsins, en þessi sveitarfélög yrðu þó ákjósanlegur dvalarstaður, til dæmis fyrir atvinnulaust fólk á höfuðborgarsvæðinu. Það fengi þá vinnu og loforð um góða þjónustu í þessu sveitarfélagi. Það eru því ótalmargir kostir við að auka tekjumöguleika sveitarfélaganna. Ef ekki fæst nægilega margt fólk til að vinna aflann á hverjum stað eða ekki fást nógu margir til að gera út frá hverjum stað er innbyggður hagkvæmnismekanismi í kerfið þar sem ég, íbúi í Reykjavík, get keypt afla sem boðinn er upp í Súðavík eða á Raufarhöfn. Ég þarf að vísu að greiða félaginu 10% gjald aukalega en hagkvæmnin sem því fylgir er tryggð og það er mjög mikilvægt að menn festist ekki með ákveðinn pakka af aflaheimildum á hverjum stað heldur sé hægt að versla með það á útboðum og selja aflann hvert á land sem er, einnig landaða fiskinn.