141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir að vekja máls á stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið enda er mikilvægt að þingmenn ræði sem oftast stöðuna í viðræðunum og sambandsins í heild. Það gefur mér tækifæri til þess í fyrsta lagi að vekja athygli á því að nú liggur fyrir samningsafstaða Íslands í kafla sem snertir matvælaöryggi. Þar kemur skýrt fram að Ísland krefst þess áfram að hafa bann við innflutningi lifandi dýra, sem kveður þá niður enn eina tröllasöguna sem verið hefur í gangi hvað snertir viðræðurnar. Það er gott og mikið hagsmunamál fyrir bændastéttina í landinu.

Það gefur mér einnig tækifæri að vekja athygli á því að David Cameron, forsætisráðherra Breta, lét nýlega hafa eftir sér að hann vildi ekki að Bretar gengju úr Evrópusambandinu. Hann spurði þjóð sína: Viljið þið í raun vera í sömu stöðu og Norðmenn og fá löggjöfina úr faxtækinu frá Brussel? (Gripið fram í.) Nei, ég vil taka þátt í ferlinu, segir David Cameron, og þess vegna vil ég vera aðili að Evrópusambandinu áfram. Það var skoðun hans.

Ég ítreka að það er mikilvægt að við ræðum stöðuna í viðræðunum, að við ræðum Evrópusambandið og stöðu Íslands í því stórpólitíska samhengi sem allra oftast í þessum sal. Ég hvet til þess að þingmenn hafi um það sérstaka umræðu hvar við erum stödd í aðildarviðræðuferlinu og hvert við viljum halda.

Það geta verið skiptar skoðanir um hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki og það er mikilvægt fyrir umræðuna að bæði sjónarmiðin komi fram, hvort hyggilegt sé fyrir Ísland að ganga til liðs við sambandið eða ekki. En gætum þó að einu, við skulum ekki taka þann rétt af þjóðinni að fá að taka ákvörðun um hvort Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki því að það er líklega það óskynsamlegasta sem við getum gert. Við eigum að leyfa þjóðinni sjálfri að fá að taka ákvörðun um hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið. Þess vegna væri það röng ákvörðun að hætta aðildarviðræðunum á þessu stigi og taka af þjóðinni þann valkost sem Seðlabankinn telur hyggilegastan í myntmálum og taka upp aðra mynt í gegnum aðild að Evrópusambandinu. Við skulum að minnsta kosti leyfa þjóðinni að taka þá ákvörðun. (Gripið fram í: … líka með tilboðinu jafnóðum?)