145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

lengd þingfundar.

[10:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég tek undir athugasemdir og ábendingar hv. þm. Helga Hjörvars um kvöldfund. Ég held að það sé eðlilegt að forseti óski eftir því að fundað verði hér í kvöld en um leið vil ég vekja athygli forseta, af því að hann var ekki sjálfur á forsetavakt í gærkvöldi löngum stundum, á því að það er ekki til þess að bæta andrúmsloftið í þingsal þegar ekki liggur fyrir hversu lengi standi til að funda.

Ég hefði metið stöðuna pólitískt bæði innan húss og utan þannig að meiri hlutanum veitti ekkert af því að það væru sæmilega góðir gagnvegir á milli manna til að ræða ýmsar útfærslur á því hvernig við ljúkum þingstörfum fyrir jól. Stælar og útúrsnúningar eru ekki til þess fallnir að bæta það andrúmsloft þannig að ég bendi forseta góðfúslega á að fundur sem verður haldinn til miðnættis mun ekki valda neinum usla en ef við ætlum að fara í sömu vitleysuna (Forseti hringir.) og í gær er ég hrædd um að meiri hlutinn hafi ekki mikið upp úr málinu.