145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:54]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, og eins og hv. þingmaður veit rýrnaði kaupmáttur allra hér eftir hrunið. Við sem erum frísk og ung höfum kannski meiri tækifæri til að bæta okkur það upp með einhverjum hætti. Þetta eru þeir hópar sem geta það alls ekki og þeir eru á okkar ábyrgð. Við erum þeirra kjararáð, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar hefur nefnt. Við verðum að horfa til þess og spyrja okkur þeirrar samviskuspurningar: Teljum við í alvöru að einhver geti lifað af nettó 170 þús. kr. á mánuði? Eða teljum við að sá sem býr einn geti borgað af húsnæði og keypt í matinn og greitt hugsanlega af bíl ef hann er með 191 þús. kr. á mánuði? Svarið við því er nei. Það eru þúsundir einstaklinga sem þurfa að lifa á þessum kjörum. Mér finnst við fara allt of mikið í einhverjar skotgrafir; þið sögðuð þetta, þú gerðir þetta og hitt. Horfum bara á þessar tölur og (Forseti hringir.) og horfum á fólkið á bak við þær og tökum ákvarðanir út frá því.