145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á að hér eru stór tíðindi. Talsmaður Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, segist ekki vera fylgjandi einkarekstri í heilsugæslu. Þetta er mjög mikil breyting frá þeirri stefnu sem Samfylkingin var með, a.m.k. síðast þegar ég vissi, og menn töluðu fyrir á þingi. Þetta eru líka kaldar kveðjur til þess einkarekstrar sem er í gangi og búinn að vera um áratugaskeið í heilsugæslunni á Íslandi með mjög góðum árangri. Ég nefni Salahverfi sem dæmi, Lágmúlastöðina og auðvitað sjálfstæðu læknana. Þetta er nokkuð sem menn eru að ræða núna. Til dæmis vísaði forstjóri lækninga hjá heilsugæslunni nákvæmlega í þessa reynslu og sömuleiðis reynslu annars staðar á Norðurlöndum. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilnina. Þetta er stefnubreyting og stór pólitísk tíðindi. Það er afskaplega skýrt og gott að geta talað út frá þessu (Forseti hringir.) því að þetta sýnir að Samfylkingin er Alþýðubandalagsflokkur eins og við kannski vissum (Forseti hringir.) en það er miklu skýrara núna en oft áður.